Netöryggisstofnun Frakka, ANSSI, hvetur frönsk fjarskiptafyrirtæki til þess að sniðganga Huawei í væntanlegri 5G uppbyggingu. Frakkar ætla samt sem áður ekki að banna aðkomu fyrirtækisins að 5G væðingu fjarskiptakerfa þar í landi. Bretar skoða nú hvort banna eigi Huawei aðkomu að 5G væðingu þar í landi.
Í frétt Reuters er haft eftir Guilaume Poupard, yfirmanni ANSSI, að stofnunin muni ekki framfylgja ströngu banni á notkun búnaðar frá Huawei, en þau félög sem hingað til hafa ekki notað búnað Huawei eru hvött til að halda því áfram.
Tvö af stærstu fjarskiptafyrirtækjum Frakka, SFR og Bouygues Telecom, nota búnað Huawei í kerfum sínum. ANSSI hefur veitt þeim fyrirtækjum sem nota búnað frá Huawei heimild til að halda því áfram en gildistími heimildanna er frá þremur árum og upp í átta ár.
Bandarísk yfirvöld hafa hvatt vestræn ríki til þess að sniðgang Huawei í uppbyggingu 5G kerfisins. Þau telja búnaðinn geta verið notaðan til njósna af hálfu Kínverja. Þeim ásökunum hafa forsvarsmenn Huawei hafnað. Fyrirtækinu er meinað að nota hugbúnað og tækni frá Bandaríkjunum í framleiðslu og vöruþróun en bannið nær einnig til framleiðenda sem sjá Huawei fyrir íhlutum.
Fram kemur í frétt BBC að bresk yfirvöld meti nú hvort að þau þurfi að taka harðari afstöðu gegn Huawei vegna takmarkananna sem bandarísk yfirvöld hafa sett fyrirtækinu. Vegna takmarkananna gæti sú staða komið upp að íhlutir í búnaði frá Huawei fái ekki grænt ljós frá þarlendum stofnunum sem sinna netöryggismálum. Í janúar var þak sett á hlut Huawei í breska fjarskiptakerfinu en nú gæti svo farið að búnaður fyrirtækisins hverfi með öllu úr kerfinu.
Búnaður Huawei er nú þegar í kerfum BT og Vodafone sem eru stór fyrirtæki á breskum fjarskiptamarkaði. Fyrirtækin hafa óskað eftir því að búnaður Huawei í kerfum þeirra megi vera í notkun til ársins 2030.
Ákveði Bretar að banna búnað Huawei í 5G netinu gæti það haft í för með sér að sá búnaður fyrirtækisins sem fyrir er í 3G og 4G kerfunum þurfi einnig að víkja. Kostnaðurinn við það gæti hlaupið á milljörðum punda auk þess sem slíkar kvaðir gætu tafið fyrir ljósleiðaravæðingu landsins.