Hafist var handa við það í dag að rífa niður veggi á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, til þess að byggja þar upp nýja og betri aðstöðu með nýjum tækjum svo að deildin verði í stakk búin til þess að taka við landamæraskimunum af Íslenskri erfðagreiningu. Stefnt er að því að þessari vinnu ljúki í lok ágúst.
Þetta segir Karl G. Kristinsson yfirlæknir deildarinnar, í samtali við Kjarnann. Hann vonast til þess að hægt verði að fá Íslenska erfðagreiningu til að halda áfram að skima á landamærunum þangað til sýkla- og veirufræðideildin er tilbúin eftir breytingar, en í dag lýsti Kári Stefánsson því yfir að ÍE myndi hætta að skima 13. júlí.
Anna í mesta lagi 1.000 sýnum á dag
„Annars erum við ekki í góðum málum varðandi ferðamennina. Það verður erfitt að skima alla sem eru að koma,“ segir Karl, en hann segir að deildin anni því í mesta lagi að greina um 1.000 sýni á dag með núverandi tækjakosti.
Þar af séu kannski 2-300 sjúklingasýni frá Landspítalanum og því væri mögulegt greina á bilinu 5-700 sýni úr ferðamönnum, eins og fram kom í skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum, sem skilað var til heilbrigðisráðherra í lok maí.
Það er því ljóst að annað hvort verður að hugsa landamæraskimunarverkefnið upp á nýtt, eins og bæði Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa sagt við fjölmiðla eftir að Kári setti fram yfirlýsingu sína, eða þá að sannfæra Kára og Íslenska erfðagreiningu um að halda áfram.
Forstjóranum hefur jú snúist hugur nokkrum sinnum á síðustu mánuðum, í tengslum við fyrirtækisins að skimunum fyrir veirunni, fyrst innanlands og svo á landamærunum.
Heilbrigðisráðherra ekki til viðtals
Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sagði við Kjarnann þegar leitað var eftir viðbrögðum frá ráðherra vegna yfirlýsingar Íslenskrar erfðagreiningar að heilbrigðisráðherra hefði ekki tök á að veita viðtal í dag, hvorki um þetta mál né önnur.