Willem Oliver, rannsakandi hjá namibísku spillingarlögreglunni ACC, segir að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós Esja Fishing, dótturfélag Samherja í Namibíu, hafi greitt félagi í eigu Tamson Hatuikulipi, tengdasonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, tæpar 30 milljónir namibískra dala. Það er jafnvirði 245 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Þetta sagði rannsakandinn fyrir dómstóli í Windhoek höfuðborg Namibíu í gær, en þar standa yfir réttarhöld, þar sem teknar eru fyrir beiðnir Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins og áðurnefnds tengdasonar hans, um að fá að ganga lausir gegn tryggingu.
Einnig kom fram í máli Oliver að endurskoðandi Esju Fishing, hefði sagt spillingarlögreglunni að fyrirtæki Hatuikulipi hefði aldrei sinnt ráðgjafastörfum fyrir útgerðarfyrirtækið, þrátt fyrir að reikningar frá fyrirtæki Hatuikulipi hefðu verið gefnir út fyrir ráðgjafastörf.
Hatuikulipi og Esau hafa ásamt fimm öðrum setið í gæsluvarðhaldi síðustu mánuði á meðan namibísk yfirvöld rannsaka mál þeirra. Namibískir fjölmiðlar hafa fylgst með réttarhöldunum í Windhoek og gert því sem þar kemur fram skil undanfarna tvo daga.
Samkvæmt frétt á vef blaðsins Informanté sagði Oliver að rannsakendur ACC hefðu komist að því að áform þeirra sem ákærðir hafa verið í málinu um spillingu í namibískum sjávarútvegið hefðu verið teiknuð upp fyrir næstum því áratug síðan, á búgarði Esau.
Í frétt blaðsins Namibian í dag kemur fram að Oliver sagði ACC hafa sannanir fyrir því að hluta af áðurnefndum greiðslum Esju Fishing til félags í eigu Tamson Hatuikulipi hefði verið dreift áfram til félaga í eigu annarra sem sitja í varðhaldi vegna málsins, þeirra James Hatuikulipi, frænda Tamson og fyrrverandi stjórnarformanns ríkisútgerðarfyrirtækisins Fishcor, og fyrrverandi dómsmálaráðherrans Sacky Shanghala.
Þetta eru þeir þrír menn sem nefndir hafa verið „hákarlarnir“ í umfjöllunum hérlendra miðla um Samherjaskjölin.
Einnig sagði rannsakandinn Oliver, samkvæmt frétt Namibian, að rannsókn ACC hefði leitt í ljós að félög Samherja hefðu tekið þátt í því með ákærðu í málinu að leggja á ráðin um að hagnast á tvíhliða fiskveiðisamkomulagi sem gert var á milli ríkisstjórna Angóla og Namibíu.
Sagður hafa beðið Samherja um að ljúga til um greiðslur
Þá kom einnig fram í dómsal í dag að spillingarlögreglan hefði skoðað síma James Hatuikulipi eftir að hann var handtekinn og komist að því að hann hafði samband við Samherja til þess að reyna að fela slóð sína, en hann átti aflandsfélagið Tundavala sem skráð var í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Samkvæmt því sem fram kom í umfjöllunum Kveiks og Stundarinnar um Samherjaskjölin runnu andvirði fleiri hundruð milljóna íslenskra króna inn á reikninga þess félags á árunum 2014-2019.
ACC says it recovered James Hatuikulupi's phone after his arrest and established that he contacted Samherji to cover his tracks, asking them to say these payments were made to Angola and not Tundavala, his Dubai-registered company. pic.twitter.com/ONFhJUYC9N
— Namibian Sun (@namibiansun) July 8, 2020
Namibískir miðlar fjalla um að fram hafi komið í máli fulltrúa spillingarlögreglunnar að Hatuikulipi hafi beðið einhvern tengilið sinn hjá Samherja um að segja að greiðslurnar hefðu farið til félags í Angóla, en ekki Dúbaí-félagsins.
Sagði að um væri að ræða venjulega þóknun, ekki mútur
Samkvæmt frétt Namibian gaf Tamson Hatuikulipi yfirlýsingu fyrir réttinum þar sem hann neitaði ekki fyrir greiðslurnar frá dótturfélagi Samherja, en hann neitaði því þó alfarið að um hefði verið að ræða mútugreiðslur. Þessi svör hefur hann áður veitt vegna greiðslna sem honum bárust.
Hann sagði í yfirlýsingu sinni að Esja Fishing hefði einungis verið að greiða honum þóknun, eftir að hann og James frændi hans hefðu kynnt fulltrúa Samherja fyrir namibískum veiðirétthöfum, sem Samherji hefði síðan samið við um kvóta. Lögmaður hans sagði að greiðslurnar væru lágar, miðað við það sem tíðkaðist.
Hatuikulipi sagði einnig í yfirlýsingu að það væri engin spilling í sambandi hans við tengdaföður sinn Esau, og að hann væri ekki sekur um að hafa tekið þátt í spillingarsamsæri, svikum og peningaþvætti eins og hann hefur verið sakaður um.
Ásakanir á hendur Jóhannesi
Einnig komu fram í yfirlýsingu Hatuikulipi ásakanir á hendur uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni. Hatuikulipi sakar Jóhannes um að hafa svikið fé út úr Samherja til þess að fjármagna vímuefnaneyslu og segir að af þeim sökum sé ekki hægt að treysta því sem hann segir.
Sakborningurinn segir allt málið í heild sinni byggt á því að Jóhannes hafi horn í síðu Samherja og vilji koma höggi á íslenska sjávarútvegsfyrirtækið.
Tilbúnir að reiða fram háar tryggingar gegn því að losna úr haldi
Hatuikulipi býðst til þess að veita ríkinu miklar tryggingar gegn því að verða látinn laus. Maðurinn er ansi auðugur, en samkvæmt frétt Namibian á hann 11 ökutæki, sem eru metin á nærri 100 milljónir íslenskra króna og 22 fasteignir, sem metnar eru á um 326 milljónir íslenskra króna.
Hann sagðist tilbúinn að láta ríkið hafa 200 þúsund namibíska dali, jafnvirði 1,6 milljóna íslenskra króna, í reiðufé og þrettán skuldlausar fasteignir vítt og breitt um landið í tryggingu til þess að fá frelsi á meðan rannsókn spillingarlögreglunnar heldur áfram.
Samkvæmt frétt Namibian Sun hefur Bernhard Esau boðist til þess að greiða 50 þúsund namibíska dali í reiðufé og láta ríkið hafa eignir að andvirði 23 milljóna namibískra dala, 188 milljóna íslenskra króna, til þess að fá að losna úr varðhaldi.
Fulltrúi spillingarlögreglunnar telur þó ekki rétt að leysa tvímenningana úr haldi, þar sem hætta sé á að þeir spilli fyrir rannsókn yfirvalda eða reyni að skjóta undan eignum sínum. Réttarhöldin í Windhoek halda áfram á morgun, fimmtudag.