Fylgifiskar kórónuveirufaraldursins eru svipaðir um allan heim. Atvinnuleysi hefur stóraukist, fólk hefur hafist við í einangrun í lengri tíma og örvænting gerir vart við sig. Við þessar aðstæður eykst hættan á annars konar faraldri í faraldrinum: Ópíóðafíkn og dauða af völdum þessara lyfja sem áttu að lina þjáningar en auðvelt er að ánetjast og missa algjörlega tökin á öllum þáttum lífsins.
Í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum undirbýr fólk sig fyrir aðra bylgju faraldurs. Ekki af völdum nýju kórónuveirunnar heldur vegna taumlausrar og lífshættulegrar notkunar ópíóðalyfja. Dauðsföllum af hennar sökum hafði farið fækkandi.
Í ítarlegri fréttaskýringu breska blaðsins Guardian kemur fram að 95 hafi látist af völdum COVID-19 í Vestur-Virginíu síðustu þrjá mánuði. Til samanburðar létust þar tæplega þúsund manns af of stórum skammti eiturlyfja árið 2018 – fyrst og fremst opíóða og metamfetamíns.
Vandamálið er ekki nýtilkomið í ríkinu. Það hefur verið viðvarandi í um tvo áratugi og haft áhrif á alla þætti samfélagsins. Talið er að um 600 þúsund manns hafi látist í Bandaríkjunum vegna ofnotkunar á ópíóðum síðustu tuttugu árin.
Morfínskyld verkjalyf, svokallaðir ópíóðar, voru markaðssett sem kraftaverkalyf við hvers kyns verkjum er þau komu á markað á tíunda áratug síðustu aldar, m.a. hið alræmda OxyContin fyrirtækisins Purdue Pharma. Lyfið reyndist sérlega ávanabindandi og talið eiga stærstan þátt í þeim ópíóðafaraldri sem geisað hefur í Bandaríkjunum.
The Guardian hefur eftir Mike Brumage, fyrrverandi yfirmanni lyfjaeftirlits Vestur-Virginíu, að tilfellum ofskammta af ópíóðum fari „snarfjölgandi“ og að vart verði aftur snúið. „Þegar flóðbylgja COVID-19 hjaðnar þá verðum við skilin eftir með sömu félagslegu aðstæður sem urðu til þess að ópíóða-faraldurinn hófst á sínum tíma. Og þessar aðstæður munu vara lengi.“
Heilbrigðisyfirvöld í um þrjátíu ríkjum Bandaríkjanna, m.a. Kentucky, Flórída, Texas og Colorado, hafa undanfarið tilkynnt um fjölgun dauðsfalla af völdum ópíóðanotkunar. Bandaríska læknafélagið segist hafa „gríðarlegar áhyggjur“ vegna þessa.
Síðustu mánuði hefur heilbrigðisstarfsfólk þurft að einbeita sér að COVID-19. Úrræði sem fólk sem átt hefur við fíknisjúkdóma að stríða hefur nýtt, hefur verið ýtt til hliðar. Þá hafa sóttvarnaraðgerðir ýmsar, svo sem útgöngubönn og ferðatakmarkanir orðið til þess að margir hafa ekki getað sótt sér þá hjálp sem þeir hefðu þurft á að halda. Aðhaldið sem samskipti við annað fólk veitir hefur ekki verið til staðar. Og þeir sem verst eru settir, fátækir og jafnvel heimilislausir, hafa ekki getað nýtt sér fjarfundarbúnað – þeir eiga oft hvorki tölvu né síma.
Sérfræðingar í fíkniefnamálum segja í grein Guardian að aðgerðir til að stöðva COVID-19 hafi verið nauðsynlegar þó ýmislegt mætti úfæra með öðrum hætti. Þeir benda svo á muninn á viðbrögðum stjórnvalda við COVID og við ópíóðafaraldrinum. Þegar veira sé á ferð sé hægt að finna fjármuni til aðgerða en í faraldri ópíóðanotkunar hafi engir peningar verið til.
Emily Walden, sem fer fyrir aðgerðarhópi sem berst gegn ávísunum lækna á ópíóðalyfin, bendir á að á meðan bandarísk stjórnvöld hafi sett 6 trilljónir dollara í aðgerðir vegna COVID hafi sama stjórn, ríkisstjórn Donalds Trump, sett 6 milljarða dala í baráttuna gegn ópíóðafaraldrinum á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins. Á þessum tveimur árum hafi álíka margir dáið vegna ofskömmtunar lyfjanna og hafa dáið vegna COVID-19.