Um 180 bóluefni gegn COVID-19 eru í þróun í heiminum í dag. Rúmlega tuttugu eru nú prófuð á fólki. Yfirleitt tekur mörg ár að þróa bóluefni áður en það kemur á markað en vísindamenn keppast nú við að flýta því ferli og vonast til að á næsta ári verði öruggt og áhrifaríkt bóluefni gegn þessum nýja sjúkdómi tilbúið.
Það bóluefni sem þykir líklegast til að verða hið fyrsta til að gagnast í baráttunni á heimsvísu er í þróun í Oxford-háskóla. Þó að mörg önnur þróunarverkefni lofi góðu, m.a. nokkur í Bandaríkjunum, hafa sérfræðingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sagt að Oxford-teyminu virðist ganga best. Bóluefnið er nú komið á síðari stig þróunar og þar með lengra en nokkurt annað bóluefni.
Í frétt Economist um málið segir að stjórnvöld ríkja víða um heim hafi sett peninga til þróunar Oxford-bóluefnisins, eins og það er kallað. Verkefnið nýtur því gríðarlegs fjárhagslegs stuðnings, ólíkt t.d. því bóluefni sem lengst er komið í þróun í Kína.
Þá er bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca, sem stendur að þróuninni ásamt vísindamönnum háskólans, að útfæra skipulag á því hvernig koma megi bóluefninu til sem flestra í heiminum „hratt og örugglega“.
Og það styttist í að í ljós komi hvort Oxford-bóluefnið sé jafn áhrifaríkt og vonast er til. Talað er um ágústlok í því sambandi. Ef sú prófun á efninu sem nú stendur yfir heppnast vel þá geta þar til bær yfirvöld, að því er fram kemur í grein Economist, samþykkt bóluefnið til notkunar í neyð og í kjölfarið meðal fólks í sérstökum áhættuhópum. Ef allt gengur að óskum, sem enn er óvíst, gæti sá hópur fengið bóluefnið þegar í október. Og AstraZeneca telur að fullt samþykki fyrir notkun bóluefnisins gæti fengist snemma á næsta ári.
Snemma í janúar, aðeins nokkrum dögum eftir að ný veira uppgötvaðist í Kína, var hafist handa við að afhjúpa erfðamengi hennar. Í mars hófust fyrstu tilraunir með bóluefni á fólki. Tugir teyma vísindamanna hafa lagt nótt við dag við að rannsaka veiruna og freista þess að finna upp bóluefni gegn henni. Í miklu kapphlaupi við tímann. Margar tilraunir munu mistakast. Margar tilraunir munu ekki skila þeim árangri sem vonast var eftir. En vonin er sú að einhverjar þeirri eigi eftir að skila þeim árangri að hægt verði að bólusetja fólk gegn SARS CoV-2 svo koma megi böndum á faraldurinn skæða sem enn virðist ekki hafa náð hámarki á heimsvísu.
Talsmenn AstraZeneca hafa sagt að hver skammtur af Oxford-bóluefninu ætti ekki að þurfa að kosta mikið meira en kaffibolli. Þegar hafa verið lagðar inn pantanir á tveimur milljörðum skammta.
En stóru spurningarnar eru: Mun bóluefnið virka? Og er það öruggt?
Það er ekki að ástæðulausu að bóluefni hafa hingað til verið mjög lengi í þróun. Í mörg ár og jafnvel áratugi. Að búa til öruggt bóluefni, sem veldur ekki meiri skaða en veiran sjálf myndi valda, hefur hingað til verið langhlaup – ekki spretthlaup.
Tilraunir á Oxford-bóluefninu standa yfir í Bretlandi, Suður-Afríku og Brasilíu. Í Bretlandi er verið að prófa efnið á um 7.000 manns. Eitt af því sem rannsakað er hjá þeim sem taka þátt í tilrauninni eru viðbrögð við efninu og hversu stóran skammt þarf að gefa svo að nægt mótefni myndist.
New York Times fylgist stöðugt með stöðunni á þróun bóluefna. Þá samantekt má sjá hér.