Hópur fréttamanna hjá Al Jazeera, sem komu að gerð heimildarmyndar um meðferð stjórnvalda í Malasíu á óskráðum verkamönnum á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir í landinu, voru í dag yfirheyrðir af lögreglu. Stjórn Al Jazeera segist standa með sínum fréttamönnum og hafa miklar áhyggjur á rannsókn lögreglunnar.
Lögreglan segir yfirheyrslurnar vegna meintra brota fréttamanna á fjölmiðlalögum Malasíu. Heimildarmyndin heitir Locked Up in Malaysia's Lockdown og var frumsýnd þann 3. júlí. Í henni var fjallað um lögregluaðgerðir sem farið var í gegn óskráðum farandverkamönnum þegar strangt útgöngubann var í gildi í Malasíu. Þúsundir slíkra verkamanna voru handteknir.
Stjórnvöld í Malasíu sem og ríkissjónvarpið þar í landi segja myndina „ónákvæma, misvísandi og óréttláta“.
Varnarmálaráðherra Malasíu hefur farið fram á það að Al Jazeera biðji malasísku þjóðina afsökunar og segir ásakanir um rasisma og mismunun gegn farandverkamönnum ekki eiga við rök að styðjast.
Stjórnendur Al Jazeera hafna ásökunum malasískra yfirvalda hins vegar algjörlega. Þeir segja myndina hafa verið unna af heilindum og fagmennsku.
Lögfræðingur fréttamannanna segir þá samvinnufúsa við lögreglu. Hann bendir á að þeir hafi ítrekað reynt að fá viðtöl við yfirvöld í Malasíu vegna umfjöllunar sinnar en án árangurs.
Í frétt Al Jazeera og New York Times um málið segir að fréttamennirnir hafi verið yfirheyrðir í marga klukkutíma. Að þeim loknum hélt lögreglustjórinn blaðamannafund þar sem hann sagði að enn hefði ekki verið tekin ákvörðun um hvort fréttamennirnir yrðu ákærðir.
Í heimildarmyndinni var sjónum beint að meðferð yfirvalda á farandverkamönnunum en einnig að árangri landsins í því að koma böndum á faraldurinn. Þá var einnig fjallað um starf hjálparsamtaka sem reyndu að koma farandverkamönnunum til hjálpar.
Fréttamennirnir eru allir búsettir í Malasíu. Þeir hafa orðið fyrir hótunum, m.a. morðhótunum.
Six #AlJazeera staff presented themselves for questioning at Bukit Aman police HQ accompanied by 7 lawyers for questioning over a documentary on treatment of migrant workers https://t.co/e04NGA4afh
— Amy Chew (@1AmyChew) July 10, 2020
„Að ákæra fréttamenn fyrir að vinna vinnuna sína er ekki aðgerð sem á að eiga sér stað í lýðræðisríki. Blaðamennska er ekki glæpur,“ sagði m.a. í yfirlýsingu stjórnar Al Jazeera. Þar kom einnig fram að óttast væri um afdrif farandverkamannanna sem tjáðu sig í myndinni. Þeir hefðu einnig orðið fyrir árásum á netinu. Yfirvöld í Malasíu hafa gefið út leitarheimild vegna manns frá Bangladess sem kom fram í myndinni og sagði frá reynslu sinni.
Þetta er ekki eina tilvikið þar sem fréttamenn hafa verið handteknir og yfirheyrðir vegna fréttaskrifa af ástandinu í Malasíu í faraldrinum. Fréttaritari South China Morning Post var yfirheyrður nýverið eftir að hafa fjallað um handtökur farandverkamanna á meðan útgöngubanninu stóð. Þá var aktívisti, sem aðstoðað hefur flóttafólk í landinu, boðuð í yfirheyrslu í kjölfar færslu sem hann ritaði á Facebook um meðferð yfirvalda á farandverkafólki og flóttafólki í faraldrinum.
MEAA calls on Malaysia to drop its investigation into an Al Jazeera documentary and to ensure the safety of the broadcaster's journalists, some of whom are MEAA membershttps://t.co/Jn2oA3yPKD#MEAAmedia
— MEAA (@withMEAA) July 10, 2020
Image: 'Locked Up in Malaysia's Lockdown' - Al Jazeera pic.twitter.com/QwawcL26kj
Í heimildarmyndinni var sýnt hvernig lögreglan girti af svæði farandverkamanna með gaddavír. Þá var einnig fjallað um fjöldahandtökur sem sagðar voru gerðar til að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19. Var þeim smalað inn í rútur og í þrönga klefa og var í myndinni fjallað um hvort að sú aðgerð ein og sér hafi orðið til þess að veiran breiddist út á meðal þeirra.
Milljónir farandverkamanna vinna í Malasíu, oft án tilskilinna leyfa. Flestir þeirra eru frá Bangladess, Indlandi og Indónesíu.
Hér má nálgast heimildarmyndina sem er 25 mínútur að lengd.