Meðlimum Siðmenntar hefur fjölgað um þriðjung síðan 1. desember 2018. Þetta kemur fram í tölum um skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög sem Þjóðskrá birti í vikunni. Þann 1. júlí voru meðlimir Siðmenntar alls 3.746 samanborið við 3.470 þann 1. desember 2019 og 2.815 þann 1. desember 2018.
Hlutfallslega var mest fjölgun meðlima í Stofnun múslima á Íslandi. Meðlimum fjölgaði um meira en þriðjung frá því í desember síðastliðnum, úr 251 í 341. Frá því í desember 2018 hefur meðlimum fjölgað um hátt í 80 prósent en þá var fjöldi meðlima 191.
Enn fækkar í þjóðkirkjunni
Þjóðkirkjan er eftir sem áður stærsta trúfélag landsins. Meðlimum hefur hins vegar fækkað á undanförnum árum. Þeir voru rúmlega 230 þúsund þann 1. júlí eða 62,9 prósent landsmanna. Þann fyrsta desember í fyrra voru meðlimirnir rúmlega 231 þúsund og þann 1. desember 2018 voru þeir tæplega 233 þúsund.
En þar með er ekki öll sagan sögð, því landsmönnum fer einnig fjölgandi. Ef horft er á hlutfall landsmanna í þjóðkirkjunni sést að það hefur farið úr 65,2 prósentum í desember 2018 niður í 62,9 prósent í júlí 2020.
Fjölgun hefur orðið í þeim trúfélögum sem á eftir Þjóðkirkjunni koma í stærð. Næstflestir eru skráðir í Kaþólsku kirkjuna, alls tæplega 15 þúsund einstaklingar. Söfnuðurinn hefur stækkað ár frá ári og er helsta ástæðan fyrir því fjölgun erlendra ríkisborgara sem setjast hér að.
Mikil fækkun hjá Zúistum
Mesta fækkunin á meðal þeirra trú- og lífsskoðunarfélaga sem hafa 10 meðlimi eða fleiri var hjá trúfélaginu Zuism. Síðan 1. desember í fyrra hefur meðlimum fækkað um 13,3 prósent, fóru úr 1.255 niður í 1.088. Þann 1. Desember 2018 voru 1.630 einstaklingar skráðir í trúfélagið.
Mikið hefur verið fjallað um málefni félagsins á undanförnum misserum. Í upphafi var trúfélagið stofnað með það að markmiði að berjast fyrir því að hið opinbera felldi úr gildi lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi og fjárstyrki. Þá endurgreiddi félagið hluta sóknargjalda til meðlima félagsins og það loforð skilaði trúfélaginu á fjórða þúsund sóknarbarna.
Fjöldi þeirra sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga er tæplega 27 þúsund og rétt um 54 þúsund einstaklingar eru skráðir með ótilgreint trú- og lífsskoðunarfélag.