Skipulagsstofnun telur matsskýrslu Arctic Sea Farm um áformað 4.000 tonna laxeldi í Arnarfirði uppfylla skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum. Í áliti sínu telur stofnunin helstu neikvæðu áhrif framleiðslunnar felast í auknum áhrifum á botndýralíf, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Auk þess telur Skipulagsstofnun að framleiðslan komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi á Vestfjörðum, bæði núverandi og fyrirhuguðu, á villta laxa með tilliti til erfðablöndunar og á villta laxfiska vegna laxalúsar.
Í matsskýrslu kemur fram að Arctic Sea Farm áformi að hefja laxeldi á þremur svæðum í Arnarfirði; í Trostansfirði, við Hvestudal og við Lækjarbót. Stefnt sé að því að framleiða að meðaltali 4.000 tonn af laxi árlega í kynslóðaskiptu eldi. Til eldisins verði notuð seiði af kynbættum laxastofni af norskum uppruna.
Auk fyrirhugaðs laxeldis Arctic Sea farm í Arnarfirði hafa fyrirtækin Arnarlax og Fjarðalax heimild til framleiðslu á 11.500 tonnum af laxi í firðinum. Hafrannsóknastofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar 20.000 tonn. Í umsögn Umhverfisstofnunar um matsskýrsluna kemur fram að Arnarlax áformi um 4.500 tonna aukningu og samanlagt séu því nú uppi áform um 20.000 tonna eldi í firðinum.
Í matsskýrslu kemur fram að áætlað fóðurmagn fyrir eina kynslóð af laxi á sérhverju eldissvæði sé um 4.840 tonn (um 1.150 kíló af fóðri þarf til að framleiða 1.000 kíló af laxi). Vegna laxeldisins muni um 460 tonn af föstum úrgangi (kolefni, köfnunarefni og fosfór) falla til botns undir og í nágrenni eldiskvía yfir þriggja ára eldislotu og um 130 tonn af uppleystum næringarefnum.
Áhrif á eðlisþætti sjávar og burðarþol
Arctic Sea Farm telur að áhrif eldisins á eðliseiginleika sjávar séu afturkræf og tímabundin. Með markvissri vöktun á umhverfisáhrifum verði mögulegt að grípa til mótvægisaðgerða gerist þess þörf.
Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að hafa beri í huga að í burðarþolsmati Hafró komi fram að burðarþolsmörkin séu ekki endanleg og að búast megi við endurmati ef þörf krefur. Því telur Skipulagsstofnun að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um vöktun á áhrifum eldis á botnlag sjávar.
Lífrænt álag, botndýralíf og kalkþörungar
Í matsskýrslu Arctic Sea Farm Farm kemur fram að saur og fóðurleifar undir kvíunum og næst þeim muni hafa tímabundin neikvæð áhrif á vistkerfi hafsbotns. Þrátt fyrir markvissa stýringu á nýtingu eldissvæða og hvíld þeirra að lokinni slátrun megi búast við að áhrifin verði talsvert neikvæð en staðbundin og afturkræf.
Skipulagsstofnun telur að áhrif vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs á sjávarbotn verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði undir og nærri eldisstað. Fjær verði áhrifin nokkuð neikvæð til óveruleg. Áhrifin verði þannig staðbundin og ráðist af umhverfisaðstæðum á hverjum stað.
Stofnunin telur mikilvægt að fyrir liggi rannsóknir á botndýralífi á áætluðum eldissvæðum áður en gefið verði út starfsleyfi og að í því verði kveðið á um að eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn hafi náð ásættanlegu ástandi.
Erfðablöndun
Arctic Sea Farm telur að „virkasta átakið“ til að fyrirbyggja erfðablöndun sé að hindra sleppingar smáseiða og auka notkun ljósa til þess að „draga úr hættu á að eldisfiskur verði kynþroska“. Í heildina metur fyrirtækið áhrif erfðablöndunar óveruleg og afturkræf.
Með hliðsjón af áhættumati Hafrannsóknastofnunar telur Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdar á laxastofna í þeim ám sem matið nær til verði óveruleg en horfa verði einnig til áhrifa í öðrum ám. „Gera verður ráð fyrir að strokulaxar geti leitað upp í ár í Arnarfirði og jafnvel í ár í öðrum fjörðum sem áhættumat tekur ekki tillit til.“
Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er bent á að í Noregi hafi greining á áhrifaþáttum í umhverfi villtra laxa sýnt að fiskeldi hafi áhrif og geti leitt til breytinga og jafnvel útrýmingar. Farleiðir og dreifing laxa sem sleppi úr sjókvíum hér við land sé óþekkt. Miðað við stöðu þekkingar á innblöndun sé ekki hægt að fallast á að áhrifin verði óveruleg og afturkræf.
Niðurstöður rannsóknar Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna benda til þess að laxastofnar á Vestfjörðum myndi sérstakan erfðahóp og að líta megi svo á að þeir hafi verndargildi út frá sjónarmiðum um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Einnig benda niðurstöður rannsóknarinnar til að erfðaefni eldislax hafi blandast villtum laxi á Vestfjörðum.
Telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi muni hafa nokkuð neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum. Sé horft til allra laxastofna á Vestfjörðum telur Skipulagsstofnun að samlegðaráhrif vegna annarra eldisfyrirtækja verði talsvert neikvæð.
Áhrif á fisksjúkdóma og laxalús
Komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski telur Arctic Sea Farm slík áhrif afturkræf og óveruleg.
Í ljósi þess að Matvælastofnun gerir ekki athugasemd við umfjöllun framkvæmdaaðila um áhrif sjúkdóma telur Skipulagsstofnun að litlar líkur séu á að fyrirhugað eldi komi til með að smita villta laxa. Áhrif framkvæmdar á villta fiska með tilliti til sjúkdóma eru því metin óveruleg.
En borið hefur á lúsasmiti í eldi á Vestfjörðum undanfarin ár og í Arnarfirði var gripið til lyfjameðhöndlunar vegna laxalúsar og fiskilúsar árin 2017, 2018 og 2019. Með hliðsjón af reynslu síðustu ára telur Skipulagsstofnun líklegt að laxalús og fiskilús eigi eftir að koma reglulega upp í eldi Arctic Sea Farm í Arnarfirði. Líklegt sé að fyrirhugað eldi komi til með að auka laxalúsaálag á þá laxastofna sem finna megi í firðinum. Telur Skipulagsstofnun að áhrif af völdum laxalúsar og fiskilúsar geti orðið nokkuð neikvæð á villta laxfiskastofna.
Þá telur stofnunin að með auknu fiskeldi í Arnarfirði og á Vestfjörðum fjölgi smitleiðum ásamt því að líkur aukist á því að laxalús magnist upp í og við eldiskvíar. Einnig er það mat stofnunarinnar að fyrirhugað eldi komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru núverandi og áformuðu eldi á Vestfjörðum.
Í áliti sínu bendir Skipulagsstofnun á að í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar, Lyf gegn laxalús, komi fram að notkun lyfja gegn laxalús kunni að fela í sér slæmar afleiðingar fyrir annað lífríki.
Áhrif á ásýnd og verndarsvæði
Arctic Sea Farm telur að áhrif kvíaþyrpingarinnar í Trostansfirði á landslagið yrði nokkur. Þyrpingin verði sýnileg í öllum firðinum. Eldissvæði við Hvestunúp yrði sýnilegt þeim sem keyra um Ketildalaveg út í Selárdal og einnig frá ytri hluta Vaðals sem er vinsælt útivistarsvæði. Heildaráhrif fiskeldisins á ásýnd og verndarsvæði yrðu að mati fyrirtækisins þó óveruleg og afturkræf.
Skipulagsstofnun segir að ásýndaráhrif á hin umfangsmiklu verndarsvæði í syðri hluta Arnarfjarðar vegna sjókvíanna verði áberandi neikvæð en afturkræf.
„Ljóst er að auk fyrirhugaðrar framkvæmdar Arctic Sea Farm er eldi í sjókvíum starfrækt eða fyrirhugað í flestum fjörðum Vestfjarðakjálkans,“ segir áliti stofnunarinnar. „Því telur Skipulagsstofnun líklegt að samlegð framkvæmdanna muni leiða til nokkuð neikvæðra sjónrænna áhrifa á upplifun gesta sem leið eiga um Vestfirði.“