Frá því á fimmta áratug síðustu aldar hefur svæði þar sem villiblóm vaxa í Bretlandi minnkað um sjö milljónir hektara eða 97 prósent. Sífellt meira land er brotið undir landbúnað og mannabústaði með þessum afleiðingum. En villiblómin eru grundvöllur lífs mjög mikilvægrar lífveru – lífveru sem gegnir lykilhlutverki í vistkerfum jarðar: Býflugunnar.
Í Bretlandi er því svo komið að býfluga sem kennd er við langa fálmara karldýrsins og nefnist long horned bee á ensku, er aðeins að finna á örfáum svæðum, aðallega á grösugum klettum við ströndina. Þessi býfluga er háð villiblómunum sem hún lifir á. Í námunda við þau gerir hún svo bú sitt.
Fækkun býflugna í Bretlandi, annars staðar í Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar, hefur verið ljós í nokkur ár. Og skýringin á fækkuninni sömuleiðis. Bresku náttúruverndarsamtökin Buglife ætla nú að reyna að koma upp „býlínu“ – líflínu fyrir býflugur – um Bretland þvert og endilangt. Línan verður í formi villiblóma á að minnsta kosti 150 þúsundum hektara lands, gangi allt að óskum. Blómabeltin verða um þrír kílómetrar að breidd og munu ná stranda á milli, þræða sig í kringum borgi og bæi og þekja samtals 48 þúsund ferkílómetra á Englandi.
„Ímyndaðu þér hvernig það væri að reyna að ferðast um Bretland án þess að hafa til þess vegi og járnbrautir. Ímyndaðu þér ef níu af hverjum tíu kílómetrum af vegum væru horfnir. Lífið við þær aðstæður væri ómögulegt,“ segir í kynningartexta býlínu verkefnisins á heimasíðu Buglife.
It’s Bees’ Needs Week 2020 and we are delighted to launch the completed England B-Lines network! B-Lines is a big solution to a big problem – the decline of wild pollinators: https://t.co/2n4kc0Cw90 @Defra
— Buglife (@Buzz_dont_tweet) July 13, 2020
Vonast er til að blómabeltin – býlínan – eigi eftir að skapa góð skilyrði fyrir býflugurnar með löngu þreifarana og fleiri skordýr sem eru undirstaða alls lífs á jörðinni.
Andrew Whitehouse, líffræðingur sem starfar hjá Buglife-samtökunum segir að allt of mikið landsvæði villtra plöntutegunda hafi verið brotið undir beitar- og ræktarlönd. Það hafi slitið náttúruleg blómabelti í sundur sem hefti útbreiðslu og fjölgun býflugna. Þess vegna þurfi að tengja þau svæði sem eftir eru saman á ný. Og þar kemur býlínan til sögunnar.
Catherine Jones, sem fer fyrir býlínu-verkefninu hjá Buglife, segir að skipulag verkefnisins fyrir England sé klárt og síðar á þessu ári verið lokið við að skipuleggja það í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi.
Buglife hóf undirbúnings verkefnisins fyrir sex árum með fjárstuðningi frá umhverfisráðuneytinu og fleiri opinberum aðilum. Við undirbúninginn hefur verið leitað til fjölda samstarfsaðila, m.a. náttúruverndarhópa á ýmsum svæðum, landeigenda og fleiri. Verkefnið er þegar farið af stað og í sameiningu hafa þessir aðilar búið til 450 hektara blómabelti á milli náttúrulegra svæða sem enn eru ósnortin. Árangurinn er þegar farinn að koma í ljós og hefur ein býflugnategund sést t.d. suður af Bristol þar sem engin slík fluga hefur fundist í sjö ár. Í blómabeltinu er ekki aðeins að finna blómstrandi plöntur heldur ýmsar aðrar sem býflugurnar sækjast í.
B-Lines – what is it all about?https://t.co/kAArIi9p0B#BeesNeeds pic.twitter.com/KbXVIozJYv
— Buglife (@Buzz_dont_tweet) July 13, 2020
Ein býlínan liggur frá ströndinni í Devon og inn í land og vonast er til þess að býflugan með löngu þreifarana nýti sér hana. Enn á eftir að fá marga landeigendur að verkefninu svo að það geti fari að skila þeim árangri sem vænta má.
Þessa vikuna stendur yfir árvekniátak í Bretlandi, Bees’ Needs Week, þar sem almenningur er fræddur um hvernig hann getur tekið þátt í því að bæta lífskjör býflugna með einföldum aðgerðum. Þær geta m.a. falist í því að planta ákveðnum blómum í garða og að slá flötina sjaldnar.
Í Bretlandi er að finna 250 tegundir af villtum býflugum. 24 þeirra eru hunangsflugur og fækkað hefur um meira en 80 prósent í stofnum sex slíkra tegunda á síðustu áratugum.