Í júní var 355 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á höfuðborgarsvæðinu og voru þeir 26 prósentum færri en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá Landsbankans. Þar kemur einnig fram að lítil aukning hafi verið í þinglýstum kaupsamningum í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi en í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins mældist samdráttur.
Í hagsjánni segir að maímánuður hafi verið líflegur á íbúðamarkaði. Þinglýsingar hafi verið mun fleiri í mánuðinum heldur en í apríl, þegar samkomubann stóð sem hæst, auk þess sem hækkun á íbúðaverði hafi mælst milli mánaða.
„Vísbendingar voru því um að líf væri að færast í íbúðamarkaðinn. Tölur júnímánaðar benda til þess að staðan sé nokkuð róleg enn sem komið er á höfuðborgarsvæðinu, þó viðskipti séu fleiri en þegar samkomubann stóð sem hæst,“ segir þar.
Mesta aukningin á Akranesi
Þrátt fyrir að þinglýstum kaupsamningum hafi fækkað á höfuðborgarsvæðinu fjölgar þeim víða utan þess á öðrum ársfjórðungi . Mesta aukningin var á Akranesi þar sem 57 prósent fleiri kaupsamningum var þinglýst. Aukningin nam 18 prósentum á Akureyri og 12 prósentum á Árborgarsvæðinu.
Um þennan mun milli svæða segir í hagsjánni: „Það kemur örlítið á óvart að sjá svona mikla aukningu á tímum þar sem kreppir að, og samningum fækkar á höfuðborgarsvæðinu, en þessi niðurstaða gæti verið til marks um það að fólk hafi í auknum mæli leitað út fyrir höfuðborgarsvæðið í leit að húsnæði“
Samkvæmt hagsjánni hefur um þriðjungur allra þinglýstra kaupsamninga verið utan höfuðborgarsvæðisins. Á öðrum ársfjórðungi í ár er hlutfallið 45 prósent.
Samdráttur á höfuðborgarsvæðinu en aukning utan þess
Þá segir í hagsjánni að fjölgun kaupsamninga utan höfuðborgarsvæðisins gerir það að verkum að samdráttur á öðrum ársfjórðungi er ekki jafn mikill og búast hefði mátt við fyrir landið allt. Utan höfuðborgarsvæðisins hafi kaupsamningum fjölgað um 0,5 prósent en fækkað um 31 prósent innan þess.
Að endingu er tekið fram að hafa beri í huga að mislangur biðtími eftir þinglýsingu eftir sýslumannsembættum geti að einhverju leyti skýrt ólíka þróun eftir landsvæðum.