Árlegur líffræðileiðangur stendur nú yfir í Surtsey þar sem unnið er að rannsóknum og áframhaldandi vöktun á lífríki eyjunnar. Einnig verður hreinsað sorp sem skolast hefur upp á land. Hópurinn samanstendur af níu manns en sá sem oftast hefur farið er að koma þangað fimmtugasta árið í röð. Þetta kom fram á vef Umhverfisstofnunar í vikunni.
Þar segir að það sé ekki hver sem er sem fær að fara til Surtseyjar þar sem eyjan er friðlýst sem friðland. Friðland er afmarkað landsvæði sem ákveðið hefur verið með lögum að vernda til að mynda út af sjaldgæfum tegundum lífvera sem eru í hættu eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt.
Það eru átta vísindamenn og landvörður sem taka þátt í leiðangrinum í ár en meðal þeirra eru tveir reynsluboltar. Erling Ólafsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands er að fara í eynna í fimmtugasta árið í röð og Borgþór Magnússon sem einnig starfar hjá Náttúrufræðistofnun og er með í för hefur einnig farið árlega í tugi ára.
Hópurinn lenti í eyjunni í fyrradag með þyrlu og verður til morgundagsins, fimmtudags. Fram kemur hjá Umhverfisstofnun að hópurinn hafi strax tekið eftir miklum landslagsbreytingum þar sem jarðvegur hafi skolast úr hlíðum og út í haf. Það hafi myndað sandstrendur á austanverðri eynni. Sandstrendur hafi áður verið algengar í Surtsey en undanfarin ár hafi eyjan verið stórgrýtt á alla kanta.
Í leiðangrinum í fyrra safnaðist mikið rusl á svæðinu og landverðir hreinsuðu til dæmis um 80 netakúlur af tanganum nyrst á eyjunni. Það þykir þó framför þar sem mest hefur verið hreinsað burt 400 kúlur. Almennt er ruslið í Surtsey að mestu tengt veiðarfærum, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.
Hægt er að fylgjast með starfinu á Instagram-reikningi náttúruverndarteymis Umhverfisstofnunar.