COVID-19 faraldurinn hefur vakið margar áleitnar spurningar um ákvarðanir stjórnvalda, siðferðileg álitamál í heilbrigðisgeiranum, réttindi og skyldur almennings, mat á áhættu og mismunandi hagsmunum, upplýsingagjöf til almennings og traust til vísinda.
Þetta segir Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði, í samtali við Kjarnann. Unnið verður að nýju rannsóknarverkefni í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem ber yfirskriftina „Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum“. Eyja Margrét er umsjónarmaður verkefnisins ásamt Finni Ulf Dellsén, dósent í heimspeki, og Vilhjálmi Árnasyni, prófessor í sömu grein,
Hún segir að verkefnið snúist um að skoða COVID-19 faraldurinn og viðbrögðin við honum út frá þeim undirsviðum heimspekinnar sem helst snerta á þeim álitamálum sem upp koma: hagnýttri siðfræði, femínískri heimspeki, stjórnmálaheimspeki og þekkingarfræði/vísindaheimspeki.
Fjórir heimspekinemar skrásetji helstu atburði og álitamál sem komið hafa upp, auk þess að vinna með leiðbeinendum að því að greina þessa atburði og álitamál út frá heimspeki- og siðfræðilegu sjónarhorni. Hver nemandi leggur áherslu á eitt ofannefndra sviða en hópurinn í heild sinni vinnur jafnframt saman og samþættir þannig rannsóknir sínar.
Hér á Íslandi erum við nokkuð heppin
Eyja Margrét segir að álitamálin sem komið hafa upp séu af ýmsum toga, sem sé ástæða þess að þau tengi þetta við fjögur svið innan heimspekinnar.
„Þau eru líka mismunandi eftir því hvar við erum stödd í heiminum. Hér á Íslandi erum við nokkuð heppin, ekki aðeins vegna þess að okkur hefur – fram að þessu – gengið vel í glímunni við faraldurinn heldur líka vegna þess að við búum við mikla velmegun, sem gerir það mun auðveldara en ella að taka á hinum ýmsu félagslegu afleiðingum faraldursins og annars sem honum tengist.
Án þess að ég vilji með nokkru móti gera lítið úr þeim afleiðingum hér á landi þá geta afleiðingar bæði faraldursins og ýmissa aðgerða gegn honum orðið enn afdrifaríkari í samfélögum sem eru verr stödd. Þessar afleiðingar tengjast mörgum erfiðum álitamálum, meðal annars hvaða ákvarðanir sé rétt að taka varðandi lokanir fyrirtækja og þjónustustofnana, samkomubann og fleira í þeim dúr, hvaða hagsmuna þurfi að líta til, hvað skuli gera til að lágmarka neikvæðar félagslegar afleiðingar eins og aukna áhættu fyrir þolendur heimilisofbeldis eða bregðast við því sem virðist óhjákvæmilegt við þessar aðstæður, eins og aukið atvinnuleysi.“
Margar spurningar vakna
Eyja Margrét segir að eins þurfi að huga að hlutum eins og hvenær og hve mikið sé í lagi að skerða frelsi almennings, með hvaða hætti upplýsingagjöf og upplýsingaöflun fari fram og hvernig skuli forgangsraða í heilbrigðisþjónustu.
Svo vakni ýmsar spurningar varðandi vísindarannsóknir, til dæmis hvort ástæða sé til að draga úr kröfum um tilskilin leyfi eða vönduð vinnubrögð þegar mikið er í húfi og mikið liggur á. Ekki megi heldur gleyma því máli sem hefur verið nokkuð umdeilt að undanförnu, þ.e. hvernig skuli haga takmörkunum á ferðir til og frá landinu, skimunum fyrir veirunni og öðru því tengdu.
Mikilvægt að geta kortlagt þá hagsmuni sem koma við sögu
Aðspurð af hverju mikilvægt sé að velta fyrir sér þessum álitamálum þá segir Eyja Margrét að þau telji mikilvægt að skoða málin út frá þessum spurningum og skrásetja sem fyrst meðan svo stuttur tími sé liðinn frá því að þetta ástand skall á.
„Eins og við vitum geta hugsanir og viðhorf breyst hratt með breyttum aðstæðum og fer fljótt að fenna yfir ýmislegt í minninu. Þess vegna er dýrmætt að geta átt heimildir um afstöðu til þessara spurninga á þessu stigi. Við erum að glíma við afar flókin álitamál sem er mikilvægt að gefa sér tíma til að rýna aðeins í og greina hvað það er sem skiptir máli.
Ástandið sem hefur skapast er í raun mjög flókið og lítið til af einföldum lausnum á því eða augljósum svörum við því hvað sé best að gera. Því er mikilvægt að geta kortlagt þá hagsmuni sem koma við sögu og hvaða leiðir séu færar til að koma til móts við þá og hvernig sé hægt að vega og meta bæði hagsmuni og áhættu þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar,“ segir hún.
Hlutverk heimspekinnar að gera grein fyrir mismunandi þáttum sem flækja málin
Varðandi það hvað heimspekin geti lagt til á tímum sem þessum þá bendir hún á – eins og margoft hafi verið sagt – að það ástand sem við búum við sé fordæmalaust og staðan sé í raun mjög flókin vegna mikils fjölda ólíkra hagsmuna sem takist á, en séu samt allir mikilvægir, og vegna óvissunnar sem skapist af nýjum sjúkdómi sem enginn viti almennilega hvernig hegðar sér. Hlutverk heimspekinnar hér sé að gera grein fyrir öllum þessum mismunandi þáttum sem flækja málin.
„Rannsóknin mun hafa hagnýtt gildi – beint og óbeint – fyrir rannsóknir, kennslu og ekki síst opinbera umræðu um heimspekilegar hliðar COVID-19. Ef vel tekst til munu þær heimspekilegu rannsóknir á COVID-19 sem gerðar verða á næstu árum byggja á þessari skrásetningu og greiningu, auk þess sem rannsóknir utan heimspeki – svo sem í stjórnmálafræði og félagssálfræði – geta byggt á sama grunni að nokkru leyti.
Kennsla um COVID-19 getur einnig byggt á þessum grunni, enda verða útbúnir textar fyrir Vísindavef HÍ sem henta sérstaklega vel í kennslu, til dæmis á framhaldsskólastigi. Loks mun opinber umræða geta byggt á þessum grunni, enda verða gögn og niðurstöður birtar opinberlega og fjölmiðlum sérstaklega bent á þau,“ segir hún að lokum.