Kínverjar munu grípa til nauðsynlegra aðgerða í kjölfar þess að Bretar hafa lagt bann við því að búnaður Huawei verði notaður í 5G fjarskiptakerfum í Bretlandi. Þetta kemur fram í frétt Reuters en þar segir að kínverska viðskiptaráðuneytið hafi gefið það út að málið hafi haft neikvæð áhrif á vilja Kínverja til fjárfestinga í Bretlandi.
Þar er haft eftir Gao Feng, talsmanni viðskiptaráðuneytisins, að nú sé verið að leggja mat á aðgerðir breskra stjórnvalda. Hann segir bannið stangast á við reglur um frjálsa verslun og að Kínverjar muni leita allra leiða til að verja lagalegan rétt kínverskra fyrirtækja.
Á þriðjudag ákváðu bresk yfirvöld að frá og með næstu áramótum mættu þarlend fjarskiptafyrirtæki ekki nota búnað frá Huawei í yfirstandandi uppbyggingu 5G kerfisins. Þá þurfa fyrirtækin að fjarlægja allan búnað frá Huawei sem nú þegar er í notkun innan kerfisins fyrir árslok 2027
Kínversk yfirvöld telja ákvörðun Breta hafa verið tekna vegna pólitískrar pressu frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Gao Feng hvetur Breta til þess að leiðrétta þessi mistök og verja þar með sterk viðskiptaleg tengsl þjóðanna.
Á blaðamannafundi í vikunni sagði Donald Trump sig bera ábyrgð á ákvörðun Breta en þessu hafna bresk yfirvöld. Þau segja að áhyggjur af öryggismálum hafi legið að baki ákvörðuninni auk áhyggja af því að framboð á búnaði frá Huawei gæti skerst vegna þeirra þvingana sem Bandaríkin beita fyrirtækið.
Bandarísk yfirvöld hafa hvatt vestræn ríki til þess að sniðgang Huawei í uppbyggingu 5G kerfisins. Þau telja búnaðinn geta verið notaðan til njósna af hálfu Kínverja. Þeim ásökunum hafa forsvarsmenn Huawei hafnað. Fyrirtækinu er meinað að nota hugbúnað og tækni frá Bandaríkjunum í framleiðslu og vöruþróun en bannið nær einnig til framleiðenda sem sjá Huawei fyrir íhlutum.