Rússneskir tölvuþrjótar eru að reyna að stela rannsóknargögnum um þróun bóluefna gegn COVID-19. Þessu halda stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada fram. Þau saka rússnesk stjórnvöld um nýtt áhlaup í njósnum gegn Vesturlöndum nú þegar baráttan við faraldur kórónuveirunnar stendur sem hæst.
Í frétt New York Times kemur fram að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, segir að hópur hakkara, sá hinn sami og braust inn í netþjóna Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2016, hafi nú reynt að stela trúnaðargögnum frá háskólum, fyrirtækjum og heilbrigðisstofnunum. Hópurinn er tengdur rússnesku leyniþjónustunni og er ýmist kallaður APT29 eða Cozy Bear. Segir NSA að hakkararnir séu að reyna að nýta sér það öngþveiti sem skapast eftir í faraldri COVID-19.
New York Times hefur enn fremur eftir bandarísku leyniþjónustunni að Rússar ætli sér að stela rannsóknargögnum til að þróa sitt eigið bóluefni hraðar. Tilgangurinn sé ekki sá að eyðileggja tilraunir annarra ríkja í þróun slíkra efna. Haft er eftir sérfræðingi í tölvuglæpum að ekki sé talið að heilsu almennings sé stefnt í voða vegna þessara aðgerða Rússa.
Þetta er þó talið minna mikið á það sem gerðist í kalda stríðinu milli rússneskra og bandarískra stjórnvalda þar sem njósnarar voru gerðir út til að stela trúnaðargögnum sem gagnast gætu í geimferðakapphlaupinu sem þá stóð sem hæst.
Rússnesku hakkararnir hafa beint spjótum sínum að breskum, kanadískum og bandarískum stofnunum og notað til verksins spilliforrit sem senda falsaða tölvupósta til starfsmanna stofnanna til að lokka þá til að senda lykilorð og aðrar öryggisupplýsingar.
Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarið varað við því að Kínverjar og Íranir séu að stela rannsóknargögnum um bóluefni.
Rússnesk stjórnvöld hafa þegar neitað því að tengjast málinu með nokkrum hætti og segjast enga ábyrgð bera á því.
Embættismenn innan stjórnkerfis landanna þriggja, sem orðið hafa fyrir árásunum, segjast hins vegar að mjög sterkar vísbendingar séu fyrir hendi um að hakkarahópurinn Cozy Bear, sem er undir stjórn rússnesku leyniþjónustunnar S.V.R., standi þar að baki.
„Við fordæmum þessar fyrirlitlegu árásir á þá sem eru að sinna lífsnauðsynlegu starfi sem miðar að því að berjast gegn faraldri kórónuveirunnar,“ hefur New York Times eftir Paul Chichester, framkvæmdastjóra hjá bresku Tölvuöryggismiðstöðinni (National Cyber Security Center).
Fréttastofa bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC hefur eftir forstjóra miðstöðvarinnar að fyrst hafi orðið vart við árásirnar í febrúar. Ekki er þó talið að hökkurunum hafi tekist að koma höndum yfir mikilvæg gögn. Vísindamenn við Oxford-háskóla furða sig þó á því að mikil og óvænt líkindi séu milli nálgunar þeirra á þróun bóluefnis og þeirrar sem rússneskir vísindamenn hafa tekið.