Þó að ýmislegt hafi áunnist í kynferðisbrotamálum hér á landi, ekki síst hvað vitund almennings um alvarleika þeirra varðar, hefur lítið þokast í rétta átt í réttarkerfinu að mati Guðrúnar Jónsdóttur, talskonu Stígamóta til margra ára sem lét af störfum nýverið.
Í ítarlegu viðtali við Kjarnann um síðustu helgi benti Guðrún á að enn rati aðeins brot af kærðum kynferðisbrotamálum til dómstóla og sakfellingarhlutfall í nauðgunarmálum er aðeins um 11 prósent. Mörg þeirra eru látin niður falla. „Að meðaltali undanfarin ár er ennþá hægt að telja dóma sem falla í nauðgunarmálum á hverju ári á fingrum handar einnar konu. Á meðan stóraukning hefur orðið í fjölda þeirra sem leita til Stígamóta vegna nauðgana. Þetta eru tveir heimar.“
Og nú er komið að því að sjá hvort að Mannréttindadómstóllinn tekur undir með Guðrúnu og Stígamótum um að kerfisvilla valdi því að ekki er ákært í fleiri málum en raun ber vitni. Lögfræðingi var falið það verkefni að fara í gegnum slík mál og sendi hann í kjölfarið átta þeirra áfram til dómstólsins. Allt eru þetta nýleg mál, „og allt eru þetta mál sem við teljum ekki hafa verið unnin nógu vel af yfirvöldum hérna heima,“ segir Guðrún.
Mannréttindadómstóllinn tekur aðeins fyrir um tíu prósent þeirra mála sem honum berast. Ákvörðun hans varðandi málin átta liggur ekki enn fyrir. „Við getum ekki sætt okkur við – og eigum ekki að sætta okkur við – að rannsóknir á kynferðisbrotamálum séu ekki fullnægjandi á Íslandi.“