Jarðskjálftahrina er nú á Reykjanesi og mældist stór skjálfti, 4,6 stig, nú klukkan 5.46 í morgun. Klukkan 23.36 í gær varð skjálfti sem mældist 5 stig. Fjöldi smærri skjálfta hefur fylgt og hafa um tuttugu þeirra, samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum, verið 3 stig eða stærri frá miðnætti. Upplýsingar hafa borist veðurstofunni um grjóthrun í Festarfjalli sem er um sex kílómetrum suðvestur af upptökum skjálftans.
Stóri skjálftinn í gær varð um þrjá kílómetra norður af Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Samkvæmt óyfirförnum mælingum úr sjálfvirkum mælum var hann 4,4 en að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra reyndist hann 5 að stærð.
Sá skjálfti fannst víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, á Stokkseyri, í Vestmannaeyjum og í Borgarnesi.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni urðu fleiri en 700 skjálftar við Fagradalsfjall í gær og viðbúið að þeir verði fleiri.
Ekki er hægt að útiloka fleiri stóra skjálfta á svæðinu í þessari hrinu, segir í tilkynningu almannavarna.
Í janúar hófst landris við fellið Þorbjörn skammt frá Grindavík samhliða jarðskjálftahrinu. Um tíma stöðvaðist landrisið en um miðjan júní hafði land þar risið um 12 sentímetra.
Jörð hefur skolfið víðar á Íslandi undanfarið. Á Norðurlandi hefur jarðskjálftahrina einnig verið í gangi.
Vísbendingar um að Grímsvötn búi sig undir eldgos
Vísindaráð almannavarna hittist á fundi 10. júní vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og nýlegra mælinga í Grímsvötnum. Á fundinum kom fram að um miðjan maí hófst þensla að nýju vestan við Þorbjörn sem benti til þess að þriðja kvikuinnskotið á þessu svæði frá áramótum væri að eiga sér stað. Innskotið virðist hafa byrjað að myndast um miðjan maí en jarðskjálftavirkni jókst nokkru síðar eða þann 30. maí. Í þeirri hrinu var stærsti skjálftinn 3,5 stig.
Á fundinum var einnig rætt um stöðuna í Grímsvötnum, en Jarðvísindastofnun og Veðurstofa Íslands voru þar við mælingar í byrjun júní. Á virknitímabilum eins og verið hefur frá 1996, er algengt að 5-10 ár séu milli gosa í Grímsvötnum. Síðast gaus þar 2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt gos. Á þeim tíma sem liðinn er frá gosinu benda mælingar til þess að kvika hafi safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfi aukist. Í byrjun júní mældu starfsmenn Veðurstofunnar brennisteinsdíoxíð, SO2, í suðvesturhorni Grímsvatna, nærri þeim stað þar sem gaus 2004 og 2011. „Þetta er í fyrsta sinn sem SO2 mælist í svo miklu magni í eldstöð á Íslandi án þess að eldgos sé í gangi og er vísbending um grunnstæða kviku“, var haft eftir Melissu Anne Preffer, sérfræðingi á Veðurstofu Íslands, í tilkynningu. Sagði hún að til viðbótar við aukið magn SO2, færi svæðið þar sem jarðhiti á yfirborði mælist stækkandi.
Mögulegt að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups
Í tilkynningu vísindaráðsins kom fram að aðstæður í Grímsvötnum væru þannig að vatnsborð standi fremur hátt auk þess sem kvikuþrýstingur væri hár í kvikuhólfinu undir öskjunni. „Því verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups, sem gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum. Alls ekki er víst að svona fari, jökulhlaup á næstunni þarf ekki að leiða til eldgoss.“