Fólk sem sýktist af COVID-19 er farið að finna verulega fyrir langtímaáhrifum sjúkdómsins. Stuttar gönguferðir verða eins og að klífa Everest-fjall. Fólk lýsir „heilaþoku“ sem geri þeim erfitt að muna og einnig erfitt að lesa, skrifa og tala. Einnig finnur það fyrir stöðugri þreytu, er andstutt og verkjar í vöðva. Einföldustu heimilisstörf verða því erfið. Og að snúa aftur til vinnu hefur reynst sumum ómögulegt.
Í Evrópu, þar sem faraldurinn gekk yfir fyrr en í Bandaríkjunum, eru læknar farnir að sjá langtímaeinkennin koma í ljós og bjóða fólki upp á endurhæfingu.
„Það sem kemur mér mest á óvart er að jafnvel sjúklingar sem þurftu ekki að leggjast inn á gjörgæslu eru mjög veikburða. Það finnast engin merki um vandamál í tengslum við hjarta-, æða- eða lungnakerfið en þeir eiga engu að síður erfitt með að ganga upp nokkrar tröppur,“ hefur CNN eftir Piero Clarvio, yfirmanni endurhæfingarmiðstöðvar fyrir COVID-sjúklinga í Genóa á Ítalíu. Hann segir flesta þeirra sem enn hafa ekki náð sér vera þróttlausa. Það geri fólki erfitt fyrir að snúa aftur til vinnu.
Lestu meira
Í frétt CNN segir að nú séu vísbendingar um að COVID-19 sé ekki aðeins sjúkdómur sem leggist á öndunarfærin heldur á öll líffæri og geti því skaðað lungu, nýru, lifur, hjarta, húðina og taugakerfið svo dæmi séu tekin.
Í nýrri rannsókn sem gerð var við Háskólann í Texas kemur í ljós að um einn af hverjum fimm sem sýkjast af COVID fá alvarleg einkenni.