Sumarið 2020 er sérstakt fyrir margar starfsstéttir sem sinna ýmiss konar þjónustu, þar á meðal fyrir leigubílstjóra. Á þessum árstíma er vanalega nóg um túra til og frá Keflavíkurflugvelli og heilmikið að gera fyrir leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu en sú er ekki raunin þennan júlímánuð.
Covid-faraldurinn hefur haft veruleg áhrif á ásókn í ferðir með leigubílum. „Til að byrja með dróst þetta saman um 80 til 90 prósent og hélst þannig fyrstu tvo mánuðina. Svo þegar þjóðfélagið fór að opnast þá fór þetta aðeins að lagast. Nú erum við með svona 50 til 60 prósent af því sem væri vanalega,” segir Guðmundur Börkur Thorarensen framkvæmdastjóri BSR.
Munar um þá sem komið hafa frá 15. júní
„Við erum að byrja að sjá fleiri útlendinga og fáum pantanir frá hótelum og Keflavíkurferðir. Það munar töluvert um þessa 60 þúsund manns sem eru búnir að koma hingað síðan 15. júní þegar opnaði. Það kemur aðeins upp á móti.”
Guðmundur bendir einnig á að það hafi áhrif að Íslendingar séu minna að ferðast með leigubílum en oftast áður í júlí, enda séu margir á ferð og flugi innanlands. „Á meðan fólk er úti á landi er það ekki að nota leigubíl í bænum." Þá eru færri ferðir með Íslendinga til og frá Keflavíkurflugvelli af skiljanlegum ástæðum.
Mestu munar þó um fækkun erlendra ferðamanna en hjá BSR voru þeir um helmingur viðskiptavina leigubílstjóra á vegum fyrirtækisins á þessum árstíma í fyrra.
Guðmundur segist frekar bjartsýnn á haustið og bindur vonir við að fleiri ferðamenn komi til landsins.
„Alveg saman hvar ég ætti heima í heiminum þá myndi mér finnast ísland spennandi ferðamannastaður. Það eru ekki eins miklar takmarkanir og lokanir hérna. Sumarið er búið að taka vel á móti okkur og þjóðfélagið er frekar jákvætt og þegar svo er þá er alltaf meira að gera hjá okkur.”
Alls eru leyfi fyrir 580 leyfum til aksturs leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu en samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru virk leyfi nú 495 talsins. Mun fleiri innlagnir á leigubílaleyfum hafa verið eftir að Covid-faraldurinn hófst heldur en áður. Mörg þeirra eru þó aðeins í tímabundinni innlögn, sem þýðir að viðkomandi leigubílstjórar geta virkjað þau að nýju þegar betur árar.