Eftir að hafa tekist á um málið í tæpa fimm sólarhringa hafa leiðtogar Evrópusambandsins loks komist að samkomulagi um björgunarpakka vegna efnahagsáhrifa faraldurs kórónuveirunnar. Samningaviðræðurnar voru leiddar af Angelu Merkel kanslara Þýskalands og Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Björgunarpakkinn hljóðar upp á 750 milljarða evra og á að nýta féð, m.a. með styrkveitingum, til að aðstoða þau ríki sem verst hafa orðið úti í faraldrinum.
„Evrópa hefur sýnt að hún getur farið nýjar leiðir við fordæmalausar aðstæður,“ sagði Merkel er samkomulagið var í höfn. „Fordæmalausar aðstæður kalla á fordæmalausar aðgerðir.“
Fundir leiðtoganna fóru fram í Brussel og einkenndust af þessum fordæmalausu aðstæðum sem Merkel nefndi: Allir voru með grímur á andliti og áföngum í samningaviðræðunum var ekki fagnað með handaböndum eða faðmlögum heldur með því að láta olnboga mæta olnboga. Fundurinn var sá fyrsti sem leiðtogar ESB hittust á í fimm mánuði eða allt frá því að COVID-faraldurinn braust út. Til stóð að hann stæði frá föstudegi til laugardags en á mánudagsmorgun höfðu samningamenn setið á fundi alla nóttina. Það var svo ekki fyrr en í dögun í dag, þriðjudag, sem samkomulagið var í höfn.
Stjórnmálaskýrendur segja að yfirvofandi brotthvarf Breta úr sambandinu hafi m.a. gert það að verkum að ákveðin átök um völd áttu sér stað á fundinum. Bretar hafa hingað til leikið stórt hlutverk á fundum sem þessum.
Í fréttaskýringu New York Times er því m.a. haldið fram að Merkel hafi stutt tillögu um aðstoð til landa sunnar í álfunni sem hún segir hafa farið mun verr út úr faraldrinum en ríki norðar í Evrópu.
Í grein NYT er m.a. greint frá persónulegum átökum einstakra leiðtoga. Þannig mun Macron hafa reiðst Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, ekki aðeins fyrir andstöðu sína við ákveðna hluti í björgunarpakkanum heldur fyrir að hafa yfirgefið kvöldverðarboð síðasta laugardagskvöld til að svara í símann. Er haft eftir embættismönnum að svefnleysi Frakklandsforseta hafi verið ástæða skapsveiflunar.
Þá eru tekin fleiri dæmi um furðulegar uppákomur af fundinum m.a. um að Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hafi verið í viðræðunum verið kallaður „herra nei“ af kollegum sínum. Hann segist ekki hafa kippt sér upp við það. „Við erum hér saman komin af því að allir vilja standa vörð um sitt eigið land, ekki til að fara í afmæli hvers annars,“ sagði hann og vísaði þar til þess að afmæli portúgalska forsætisráðherrans hafi verið fagnað á meðan fundinum stóð.