Stjórnun aðgerða vegna kórónuveirufaraldursins mun taka einhverjum breytingum á næstunni, þannig að hún verði ekki lengur í formi krísustjórnunar. Þetta sagði Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Ég held að við þurfum að breyta aðeins um áherslur núna og líta á stjórnun og aðgerðir gegn þessum faraldri sem svona daglega vinnu og færa þetta yfir í rútínuvinnu,“ sagði Þórólfur.
Hann sagði að við stæðum á krossgötum í dag í baráttunni við faraldurinn. Lítið er um innanlandssmit en faraldurinn er ekki á undanhaldi úti í heimi. Í þessu samhengi benti hann á að nú greinist mesti fjöldi á hverjum degi sem greinst hefur frá því að faraldurinn hófst.
„Það er alveg ljóst að þessi faraldur er ekki á undanhaldi í heiminum nema síður sé og engan veginn hægt að segja til um hvenær honum muni ljúka í heiminum. Þetta er hugsun sem við þurfum að hafa í huga og ég held að á þessum tímapunkti þá þurfum við að hugsa fram í tímann,“ sagði Þórólfur.
Að mati Þórólfs þarf fólk að aðlaga sig að faraldrinum og læra að lifa með honum. „Þetta er veira og faraldur sem við þurfum að lifa með næstu mánuði eða jafnvel næstu ár og við þurfum að leggja upp langtímaplön um það hvernig við ætlum að lifa með þessum faraldri erlendis og hvað við ætlum að gera til að lágmarka áhættuna á því að hér blossi upp faraldrar innanlands.“
Hann bætti því við að við gætum hrósað happi yfir því að með samstöðu hafi Íslendingum tekist að bæla faraldurinn niður. Nú þurfi aðgerðir að miða að því að bæði lágmarka útbreiðslu veirunnar sem og að koma efnahag landsins í gott horf.
„Ég held að í þessari vegferð þurfi margir aðilar að koma að borðinu auk sóttvarnalæknis með stjórnvöldum til að ákvarða hvaða leiðir eru bestar. Þó að auðvitað yrðu sóttvarnasjónarmiðin efst í mínum huga í því. En við þurfum að hugsa til lengri tíma,“ sagði Þórólfur.