Fyrirhuguð endurræsing eins ljósbogaofns og síðar uppbygging kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík með fjórum ofnum, myndi að mati Umhverfisstofnunar hafa talsvert neikvæð áhrif. Hún telur enn fremur óvissu ríkja um áhrif endurræsingar og gæði mengunarvarna án neyðarskorsteins líkt og Stakksberg áformar og hættu á rekstraróstöðugleika af þeim sökum. „Við þær aðstæður telur stofnunin mögulegt að áhrif verksmiðjunnar á loftgæði verði verulega neikvæð, bæði ryklosunar og lyktarmengunar. Þá eru áhrifin ekki aðeins staðbundin við iðnaðarsvæðið í Helguvík heldur einnig svæðisbundin með tilliti til ásýndar.“
Þetta er samandregin niðurstaða Umhverfisstofnunar á frummatsskýrslu Stakksbergs um fyrirhugaða endurræsingu kísilversins í Helguvík og stækkun þess í áföngum. Stofnunin hefur nú skilað ítarlegri umsögn sinni um skýrsluna til Skipulagsstofnunar.
Félagið Stakksberg ehf., sem er alfarið í eigu Arion banka, ráðgerir að endurræsa kísilverksmiðjuna í Helguvík í Reykjanesbæ, eftir endurbætur og hefja á ný framleiðslu á kísil. Áætluð framleiðslugeta er 100.000 tonn á ári af hrákísil í allt að fjórum ljósbogaofnum. Á næstu árum er þó aðeins stefnt á nýtingu eins ljósbogaofns og árlegri framleiðslu 25.000 tonna af kísilvörum.
Gangsetning kísilverksmiðjunnar með endurbótum er kallað 1. áfangi með nýtingu eins ljósbogaofns og einum 52 metra háum skorsteini úr síuhúsi. Að loknum 4. áfanga er fullbyggð kísilverksmiðja með nýtingu alls fjögurra ljósbogaofna og tveimur 52 metra háum skorsteinum. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á þá staðreynd að við 4. áfanga verður framleiðsla og þar með losun fjórum sinnum meiri en við 1. áfanga.
Rekstrarvandi frá upphafi
Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons var í rekstri frá nóvember 2016 til ágústloka 2017. Að mati Umhverfisstofnunar kemur skýrt fram að rekstrarörðuleika, sem ollu því að ítrekað þurfti að stöðva ljósbogaofn, megi að miklu leyti rekja til slakra gæða á búnaði og efna sem nýtt voru við framleiðsluna. Varð þetta til þess að ofninn var oft keyrður á lágu afli annað hvort við niðurkeyrslu þegar slökkt var á honum eða við ræsingu þegar kveikt var á honum á ný.
Við þessar aðstæður var lyktarmengun frá starfseminni hvað verst en ekki er að fullu vitað hvers vegna. Erfiðlega reyndist að halda ofninum stöðugum, ekki síst vegna lítilla gæða í búnaði verksmiðjunnar en einnig vegna skorts á þjálfun starfsfólks.
Athugasemdir voru gerðar í eftirliti Umhverfisstofnunar með starfseminni allt frá útgáfu starfsleyfisins og er áréttað í umsögninni að „vegna umfangsmikilla og endurtekinna rekstrarvandamála var umfang eftirlits með verksmiðjunni fordæmalaust“. Eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar fóru í alls 15 eftirlitsferðir milli 13. júlí 2015 og 21. júlí 2017 og voru á því tímabili skráð 22 frávik auk 16 athugasemda.
Rekstur verksmiðjunnar hafði nokkra sérstöðu hvað varðar eðli, umfang framleiðslu og nálægð við íbúabyggð, segir enn fremur í umsögninni og að rekstur kísilversins hafði í för með sér veruleg óþægindi fyrir íbúa í nánasta umhverfi þess. Á þeim tíma sem verksmiðjan var virk tók stofnunin við um 1.600 ábendingum. Helst var kvartað undan ólykt.
Mikilvægt var að mati stofnunarinnar að bregðast við þessum mikla fjölda kvartana frá íbúum og því var ákveðið að stöðva rekstur þann 1. september 2017.
Áhrif á heilsu ekki endilega afturkræf
Í umsögn sinni fer stofnunin ítarlega yfir það mat á umhverfisáhrifum sem Stakksberg leggur á endurræsingu og stækkun verksmiðjunnar. Hún er ósammála ýmsu og öðru ekki fyllilega sammála. Þannig segir hún t.d. að áhrif á loftgæði verði talsvert neikvæð en ekki „nokkuð neikvæð“ eins og framkvæmdaaðili telur og bendir á að áhrif á heilsu séu ekki endilega afturkræf, líkt og segir í frummatsskýrslu, þó að rekstur verksmiðjunnar stöðvist. Slæm loftgæði geti hugsanlega haft áhrif á heilsu fólks til langframa.
Að mati Umhverfisstofnunar eru áhrif endurræsingar kísilverksmiðjunnar í Helguvík í stórum dráttum eftirfarandi:
Loftgæði:
Að áhrif á loftgæði verði talsvert neikvæð og tekur því ekki undir niðurstöðu frummatsskýrslu sem metur þau nokkuð neikvæð á rekstrartíma. Umhverfisstofnun telur að endurræsing og uppbygging verksmiðjunnar muni hafa í för með sér aukna losun mengunarefna í andrúmsloftið. Losun ryks ætti að vera innan marka með fullnægjandi rykhreinsivirki og að styrkur annarra mengunarefna verði innan viðmiðunarmarka við kjör aðstæður. Óvissa er þó um grundvöll þeirra aðstæðna vegna áætlana um að hafa ekki neyðarskorstein.
Stofnunin tekur fram að áhrif slæmra loftgæða eru ekki endilega afturkræf hvað varðar heilsu fólks og að losun mengunarefna er líkleg til að aukast ef pokasíur í síuhúsi verða fyrir skaða. Þetta er stutt með áliti Norconsult SA (2020). Umhverfisstofnun telur hættu á að rekstur verksmiðjunnar verði óstöðugur ef afgas er ávalt leitt í gegnum síuvirki sem getur orðið til þess að pokasíur liggja oftar undir skemmdum. Við þær aðstæður telur Umhverfisstofnun mögulegt að áhrif verksmiðjunnar á loftgæði verði verulega neikvæð.
Hvað varðar lyktarmengun einungis telur stofnunin að áhrifin verði talsvert neikvæð á íbúa Reykjanesbæjar sem eru í nálægð við verksmiðjuna þar sem starfsemi kísilverksmiðju fylgir óhjákvæmilega einhver lykt. Stofnunin telur þó að með tilkomu skorsteina, auk stöðugra rekstrarumhverfis ljósbogaofna, sé líklegt að lyktarmengun verði minni en áður. Búast má við mestri lykt þegar ofnar eru í upp- og niðurkeyrslu án neyðarskorsteins eða þegar síubúnaður virkar ekki sem skyldi. Umhverfisstofnun er því ósammála mati frummatsskýrslu um að áhrif sökum lyktar sé óveruleg.
Umhverfisstofnun telur allt benda til þess að að besti valkostur með tilliti til lyktarmengunar og hag nærliggjandi íbúa, sé að setja upp bæði 52 metra háa skorsteina á síuhús og neyðarskorstein/a á ofnhús. Skorsteinar taka við afgasi og hreinsa við venjulegar rekstraraðstæður en neyðarskorstein/ar við ofnhús taka við útblásturslofti frá ofnum aðeins við upp- eða niðurkeyrslu ofns/ofna þegar losun ryks er lítil en losun VOC-efna er mikil.
Vatnafar:
Að áhrifin verði talsvert neikvæð á grunnvatn við fullbyggða verksmiðju þar sem sú grunnvatnstaka sem þyrfti fyrir kælikerfið er yfir sjálfbærnimörkum og endurnýjunarmörkum grunnvatnslinsunnar. Hins vegar er hægt að nýta annað vatn til kælingar og dregur það úr neikvæðum áhrifum á grunnvatn. Umhverfisstofnun er því ekki fyllilega sammála mati frummatsskýrslu um að áhrifin verði nokkuð neikvæð fyrir grunnvatn.
Fuglar:
Að óvissa sé um áhrif endurræsingar á fugla þar sem vísað er í fjórtán ára gömul gögn og kann samsetning tegunda og ástand búsvæða sjófugla hafa breyst. Stofnunin getur því ekki tekið undir með frummatsskýrslu um að áhrifin verði óveruleg. Stofnunin telur ástæðu til að kanna gerð nýrrar úttektar á fuglalífi.
Lífríki fjöru og strandsjávar: Að óvissa sé um áhrif endurræsingar á lífríki strandsjávar en að áhrifin séu ekki líkleg til að vera verulega neikvæð. Í frummatsskýrslu eru áhrifin metin óveruleg en stofnunin telur að fjalla þurfi betur um áhrif fráveitu á strandsjó til að geta tekið undir þá afstöðu.
Ásýnd:
Að áhrifin við 1. áfanga endurræsingar felist aðallega í viðbót tveggja 52 metra háa skorsteina sem geta valdið auknum sjónrænum áhrifum en að þau áhrif séu óveruleg. Hins vegar er það mat Umhverfisstofnun að áhrif 4. áfanga fullbyggðrar verksmiðju, til viðbótar við þau áhrif sem ásýnd verksmiðjunnar hefur í dag, vera talsvert neikvæð á ásýnd svæðisins.
Stofnunin telur ljóst að aukið magn mannvirkja við fullbyggða verksmiðju muni valda verulegum áhrifum á ásýnd svæðisins, bæði frá þéttbýli Reykjanesbæjar, frá Leifsstöð og jafnvel frá höfuðborgarsvæðinu. Hún tekur því ekki undir með frummatsskýrslu þar sem fram kemur að áhrif á ásýnd og landslag eru talin vera nokkuð neikvæð við fullbyggða verksmiðju.
Gæti skert lífsgæði fólks
Í umsögn sinni áréttar Umhverfisstofnun ýmislegt, m.a. að þrátt fyrir að mengun hafi ekki mælst í íbúðabyggð, líkt og segir í frummatsskýrslunni, mældist hið rokgjarna efni formaldehýð við greiningarmörk og að norsk rannsóknarstofnun, sem framkvæmdi mælinguna, hafi sagt að gera þyrfti frekari mælingar þar sem mælingaaðferðin hafi ekki verið til þess fallin að greina þessi efni.
Einnig bendir hún sérstaklega á að í frummatsskýrslunni séu áhrif endurræsingar á heilsu íbúa í næsta nágrenni metin óveruleg og afturkræf en að hún telji áhrifin hins vegar líkleg til að valda íbúum einhverjum óþægindum, jafnvel skerða lífsgæði fólks vegna lyktarónæðis og að óvissa sé um áhrif útblásturs á heilsu.
Umhverfisstofnun telur þær endurbætur sem kynntar eru til þess fallnar að draga úr styrk mengunarefna en tekur fram að þau gildi losunar sem sett eru fram miðist við stöðugt rekstrarumhverfi, að ljósbogaofnar séu keyrðir við kjör aðstæður, að rykhreinsivirki virki sem skyldi og að afgas sé losað um háa skorsteina. „Þó svo losun sé undir mörkum telur Umhverfisstofnun áhrif framkvæmdar á loftgæði vera talsvert neikvæð miðað við núverandi ástand (starfsemi stöðvuð). Rekstarörðugleikar geta að mati stofnunarinnar valdið enn frekari neikvæðum áhrifum.“
Tveir 52 metra háir skorteinar í stað neyðarskorsteins
Í matsáætlun endurbóta verksmiðjunnar, sem Umhverfisstofnun skilaði umsögn við í janúar í fyrra, voru ekki komin fram núverandi áform um tvo háa skorsteina sem eru ein helsta mótvægisaðgerðin sem fara á í til að bæta dreifingu efna í andrúmslofti. Varð þessi breyting til þess að Stakksberg telur ekki þörf á neyðarskorsteini úr ofnhúsi.
Í ráðgefandi áliti Norconsult, sem gert var í ár og Umhverfisstofnun vísar til í umsögn sinni, kemur fram að allar kísilverksmiðjur í Noregi hafi neyðarskorsteina. Eru þeir nýttir við niður- og uppkeyrslu ljósbogaofna til að vernda pokasíur og stuðla þannig að stöðugri rekstri.
Umhverfisstofnun tekur undir með framkvæmdaaðila að ókostur neyðarskorsteina sé sá að við nýtingu þeirra fer loft óhreinsað út í andrúmsloftið og að því geti fylgt mikið af fínu kísilryki. Hins vegar áréttar stofnunin að þegar þörf er á losun um neyðarskorstein myndist meira af lyktarmengandi VOC-efnum. Því sé óvissa falin í því að ekki eigi að nýta aðrar aðferðir en þekktar eru annars staðar.
Í umsögninni er einnig minnt á að ekki sé að fullu vitað af hverju lyktarmengunin stafaði en að talið sé að hana megi rekja til meiri losunar VOC-efna en búist var við.
Fjórtán atriði sem fjalla þarf betur um
Umhverfisstofnun dregur saman eftirfarandi þætti sem fjalla ætti betur um í matsskýrslu framkvæmdar sem er næsta skref í skipulagsferlinu:
Ítarlegri umfjöllun um lyktarmengun þar sem metin eru annars vegar áhrif gangsetningar 1. áfanga og svo við fullbyggða verksmiðju eftir 4. áfanga. Meta ítarlega áhrif á íbúa og þá lykt sem mun finnast í nærliggjandi byggð.
Greining á landslagi og áhrifa sem hitastigull/hitahvörf frá sjó hafa áhrif á loftdreifingu og þ.a.l. lyktarmengun í næstu íbúabyggð.
Umfjöllun um fyrirhuguð viðbrögð rekstraraðila ef upp koma kvartanir um lyktarmengun.
Ítarlegri umfjöllun um sviðsmyndir þar sem settur er upp neyðarskorsteinn við ofnhús.
Ítarlegri umfjöllun um rekstur og útskiptingu pokasía við þær aðstæður þar sem ekki er neyðarskorsteinn. Frekari rökstuðning um að setja hann ekki upp.
Umfjöllun um þær aðstæður sem verða í síuhúsi verksmiðjunnar án neyðarskorsteins.
Að framkvæmdaaðili vakti bæði magnstöðu og efnainnihald þess grunnvatns sem fyrirtækið hyggist nota við framleiðsluna.
Taka fram að grunnvatnstaka vegna kísilverksmiðjunnar er áætluð úr vatnshlotinu Rosmhvalanes 2 (104-115-2-G) skilgreint skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Auk þess að losun fráveitu sé í vatnshlotið Hafnir að Gróttu og hefur (104-1382-C) sem er sérstaklega skilgreint vegna álags.
Nánari umfjöllun áhrif og útfærslu valkosts á uppdælingu og nýtingu jarðsjós inn á kælikerfi ofna í stað grunnvatns.
Skýrari umfjöllun um áhrif losunar fráveitu og kælivatns í strandsjávar-vatnshlotið og á lífríki þess og blöndun.
Umfjöllun um áhrif framkvæmdar á fugla út frá nýrri úttekt fuglalífs á svæðinu eða frekari rökstuðningur þess efnis að gögn frá 2006 séu fullnægjandi að mati sérfræðinga.
Uppfærsla á vöktunaráætlun út frá nýjum forsendum og reynslu á rekstri kísilverksmiðjunnar á árunum 2016-2017. Umhverfisstofnun telur að uppfærð tillaga að vöktunaráætlun ætti að fylgja matsskýrslu.
Útskýring á forsendum mynda fyrirhugaðra bygginga í mati á áhrifum á ásýnd svæðis út frá hæðartakmörkunum í skipulagi iðnaðarsvæðisins.
Drög að skýrslu um grunnástand svæðisins áður en starfsemin hefst eða áður en starfsleyfi starfseminnar er uppfært. Umhverfisstofnun telur að slík grunnástandsskýrsla ætti að liggja fyrir í matsskýrslu framkvæmdar en ef ekki þá skal hún liggja fyrir áður en starfsleyfi er endurskoðað.
Umhverfisstofnun minnir á að endurræsing á kísilverksmiðjunni í Helguvík er háð samþykkt stofnunarinnar. Ekki verður veitt heimild fyrir endurræsingu fyrr en að loknum fullnægjandi endurbótum og mati á framkvæmdum úrbóta.
„Gerð og eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar eru þess eðlis að endurræsing og uppbygging kísilverksmiðjunnar kann að hafa áhrif á fjölda fólks,“ segir í umsögninni. „Óljóst er hver tímaþáttur þeirra áhrifa er og hver sé tíðni tímabila upp- og/eða niðurkeyrslu ljósbogaofna þegar líklegast er að lyktarmengun verði mest.“
Er Stakksberg hefur farið yfir umsagnir og athugasemdir sem fram hafa komið á frummatsskýrsluna mun það að teknu tilliti til þeirra gera matsskýrslu sem Skipulagsstofnun mun byggja álit sitt á framkvæmdinni á.