Kafarar á vegum Landhelgisgæslu Íslands köfuðu niður að flaki El Grillo þann 16. Júlí eftir að vart varð við olíumengun frá skipinu. Flakið liggur á botni Seyðisfjarðar. Í ljós kom að aðgerðir sem farið var í til að hefta olíuleka úr einum af tönkum skipsins í vor halda og er enginn leki sjáanlegur frá þeim tanki.
Hins vegar virðist sem farið sé að leka úr öðrum tanki sem staðsettur er undir brú skipsins. Lekinn kemur frá mannopi sem er framan við brúna en drasl og set á dekki heftir aðgengi að þeim tanki, segir í tilkynningu landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar um málið. Sjávarhiti er hár á þessum árstíma sem getur orsakað aukinn leka. Ekki er um mikinn leka að ræða.
Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslan eru að meta næstu skref og mögulegar aðgerðir til að stöðva lekann.
El Grillo var 10 þúsund lesta olíubirgðaskip bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Þrjár þýskar flugvélar gerðu sprengjuárás á skipið 10. febrúar árið 1944 er það var statt á Seyðisfirði.
Flugvélarnar vörpuðu sprengjum á skipið og hæfði ein þeirra skutinn svo það sökk að hálfu leyti. Áhöfnin sem í voru 48 menn slapp, en skipverjar á skipinu skutu á móti við árásina. Eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar ákváðu að sökkva því, þó mikið magn olíu væri enn um borð.
Skipið var vel vopnum búið, með tvær fallbyssur, fjórar loftvarnabyssur og fjórar rakettubyssur. Eins voru djúpsprengjur um borð, segir í umfjöllun um það á Wikipedia.
Flakið er 134 metra langt og liggur á 50 metra dýpi í miðjum Seyðisfirði, rétt utan hafnarinnar. Olíumengunar hefur orðið vart öðru hverju á Seyðisfirði allt frá því að skipið sökk. Árið 1952 dældu Olíufélagið og Hamar 4.500 lítrum af olíu úr El Grillo. Í upphafi aldarinnar var svo ráðist í viðamiklar hreinsunaraðgerðir til að ná sem mestu af olíunni sem enn var í skipsflakinu. Magnið reyndist vera 91 tonn, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins, sem var mun minna en það sem menn óttuðust að gæti verið þar að finna.
Árið 1983 vann Landhelgisgæslan í samstarfi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli við könnun á djúpsprengjum í flakinu, segir enn fremur í samantekt á Wikipedia. Þá voru teknar upp þrjár djúpsprengjur sem fluttar voru yfir í Loðmundarfjörð þar sem þær voru sprengdar á sjö metra dýpi. Á tímabilinu frá 1972-2006 hafa yfir 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því. Einni fallbyssunni hefur einnig verið lyft upp og er hún nú minnisvarði á Seyðisfirði.