„Við erum mætt aftur!“ hrópuðu þýskir ferðamenn í gleðinni sem ríkti við Ballermann-götu á spænsku eyjunni Mallorca um síðustu helgi. „Við viljum skemmta okkur!“
Bjór og sangríur flæddu úr krönum og margir gleymdu sér í gleðinni. Myndir af þéttsetnum stöðum þar sem sóttvarnaráðstafanir voru ekki ofarlega á blaði rötuðu í fjölmiðla og vöktu hneykslan víða – ekki síst í Þýskalandi þaðan sem flestir hinna skemmtanaþyrstu ferðamanna voru. Svo óvarlega þótti farið að sumir óttuðust uppákomu eins og þá sem varð í Ischgl í Austurríki við upphaf faraldursins.
Fjölmiðlar á Mallorca birtu einnig fréttir um málið og sögðu að nánast enginn hefði verið með grímur, líkt og á að gera á almannafæri, og drykkjarglös hafi gengið manna á milli. Og þegar bjórinn og sangríurnar voru farin að flæða um æðar ferðamannanna var eins og tveggja metra reglan hefði aldrei verið til. „Það er eins og enginn þarna hafi heyrt af heimsfaraldrinum,“ stóð m.a. í umfjöllun Mallorca Zeitung, fréttamiðils sem gefinn er út á þýsku á spænsku eyjunni. „Við gengum ekki í gegnum umfangsmiklar lokanir í margar vikur svo árangrinum sé stefnt í voða með þessum hætti.“
Mallorca, eyjan fagra sem tekur fallega á móti ferðamönnum með fjölskrúðugum gróðri og freistandi sólarströndum, náði fljótt góðum tökum á útbreiðslu faraldurs COVID-19, ólíkt því sem gerðist á meginlandi Spánar. En líkt og víða annars staðar hefur tilfellum farið að fjölga á nýjan leik eftir að tilslakanir voru gerða á samkomu- og ferðatakmörkunum. Eyjaskeggjar hófu að taka á móti ferðamönnum um miðjan júní, rétt eins og við Íslendingar, og því fyrr en flestir aðrir vinsælir ferðamannastaðir í Evrópu. Daglega lenda margar farþegaþotur á flugvellinum í Palma.
Mikið efnahagslegt tjón
Samkomu- og ferðatakmarkanir komu verulega illa niður á efnahag Spánar og þar með Mallorca sem stólar meira á ferðaþjónustu en nokkra aðra atvinnugrein. „Það versta sem gæti gerst er að fá stóra hópsýkingu,“ segir Francina Armengol, svæðisstjóri spænsku eyjanna í Miðjarðarhafinu. Hún vonar að allir fari varlega héðan í frá.
Ferðamennskan á spænsku Miðjarðarhafseyjunum, Mallorca, Ibiza og fleiri, einkennist mjög af partístandi og stundum drykkjulátum. Matur og drykkir eru ódýrir og alls staðar. Ferðamenn eru svo þekktir fyrir að sletta ærlega úr klaufunum á Ballermann-götu á Mallorca. Og þýsku ferðamennirnir sem þar voru um síðustu helgi voru ekkert að láta sitt eftir liggja í því.
Jafnvel þó að ólíklegt sé að framhjá þeim hafi farið fréttir um að í faraldri COVID-19 hafa yfir 27 þúsund Spánverjar dáið. Og að tíu daga þjóðarsorg hafi verið lýst yfir í júní.
Þá, í upphafi ferðamannavertíðarinnar á Mallorca, stóðu hótelin tóm og strandirnar voru mannlausar. Flugvellir voru enn lokaðir. Um 200 þúsund störf í ferðaþjónustu eru undir venjulegum kringumstæðum á þessari stærstu eyju Spánar í Miðjarðarhafinu. Þess vegna er ekki að undra að þegar ákveðið var að opna landamærin um miðjan júní hafi rík áhersla verið á að fá sem flesta ferðamenn og það sem fyrst. Á eyjunni er að finna mörg risahótel sem bjóða „allan pakkann“ á lágu verði: Gistingu og mat og drykk eins og þú getur í þig látið.
Þetta er þó ekki ferðamennskan sem allir eyjarskeggjar vilja. Í augum margra er hún ósjálfbær og skilur þar með lítið eftir sig annað en sorp og fótspor í mjúkum sandi strandanna.
Fjöldaferðamennska í áratugi
Spænsku eyjarnar í Miðjarðarhafi, saman kallaðar Baleareyjar, voru þekktar fyrir fjöldaferðamennsku jafnvel áður en það orð var fundið upp og notað yfir aðsóknina til Barcelona og Feneyja. Reyndar var hún svo stjórnlaus og ósjálfbær að þegar ferðamálafræðingar tala um slíka þróun annars staðar kalla þeir fyrirbærið „baleariseringu“.
Líkt og annars staðar í heiminum varð COVID-19 til þess að svipta hulunni af áhrifum massatúrisma á náttúru og samfélög. Þekkt er sagan af því þegar fiskar tóku að synda um sýkin í Feneyjum á ný og hópar fugla að láta sig fljóta þar um í mestu makindum, án ónæðis frá ferðamönnum á gondólum.
Allt annar veruleiki kom í ljós.
Efnahagslega og heilsufarslega hafði faraldurinn mikil áhrif en náttúran fékk frið til að blómstra. Leiðsögumaður á Mallorca segist í viðtali við National Geographic hafa séð náttúru- og dýralíf, sem ferðamennskan mikla hafði þaggað niður, taka við sér. „Við sáum mjög sjaldgæfar tegundir víðar en áður,“ segir hann. Ágangurinn hafi stækkað búsvæði þeirra.
Tólf milljónir ferðamanna
Þegar talað er um massatúrisma á Mallorca er verið að vísa til þess að þangað koma árlega um 12 milljónir gesta. Eyjaskeggjar eru hins vegar aðeins um ein milljón. Fasteignafélög kaupa upp hús og leigja þau út. Fasteignaverðið er því orðið hátt og því ekki á færi allra sem á eyjunni búa að kaupa. Þá hafa umhverfisáhrifin verið mikil. Vatnsskortur hefur oft verið yfirvofandi og hótel hafa sprottið upp eins og gorkúlur á viðkvæðum svæðum. Fjöldi bílaleigubíla og flugvéla hefur svo mengað loftið svo það var engin nýlunda fyrir íbúa Mallorca að bera grímur fyrir vitum þegar COVID kom upp.
Það er skiljanlegt að fólk vilji koma til Mallorca. Eyjan er sólrík, sandur strandanna hvítur og sjórinn fagurblár. En sú leið sem farin hefur verið í ferðaþjónustu er ekki að skilja mikið eftir sig til þeirra sem þar búa. Fjöldaferðamennskan, með ódýru hótelunum og hlaðborðum í mat og drykk er afsprengi þróunar sem rekja má allt aftur til sjötta áratugarins. Þá þyrsti spænskum stjórnvöldum í erlendan gjaldeyri og umfangsmikil ferðaþjónusta var svarið.
Og í kjölfarið hófst gríðarleg uppbygging við strendurnar fögru – meðal annars á Mallorca. Höfuðborgin Palma varð fljótlega umkringd háum hótelbyggingum sem reyndu að lokka til sín ferðamenn í massavís, ferðamenn sem vildu ferðast ódýrt og oft.
Ibiza fór illa út úr samskonar uppbyggingu og ferðamannafjölda. Vinsældir hennar dvínuðu enda hafði eyjan mikið látið á sjá.
Nú þegar hlé hefur orðið á ferðalögum fólks vegna COVID-19 velta því sumir fyrir sér hvort hægt sé að nota tækifærið og breyta um kúrs? Breyta markhópnum og fá frekar ferðamenn sem eru tilbúnir að borga meira fyrir einstaka upplifun?
Stjórnvöld á Mallorca eru á þessari línu, þ.e. þau vilja vita hvort hægt sé að byggja ferðaþjónustuna upp með sjálfbærari og arðsamari hætti. Árið 2016 var til að mynda settur á ferðamannaskattur til að standa straum af kostnaði við náttúruvernd vegna átroðningsins. Eigendur sumra hótela og gististaða hafa ákveðið að stíla inn á gesti sem hafa meiri áhuga á menningum heimafólks og náttúrunni en því að skemmta sér fram undir morgun.
Náttúruparadísin Mallorca
Nú í kjölfar faraldurs COVID, að minnsta kosti fyrstu bylgju hans, veltir fólk því fyrir sér hvort tækifæri hafi skapast til að reyna að breyta ímynd Mallorca.
Julio Batle, prófessor og sérfræðingur í sjálfbærri ferðamennsku og hagfræði, segir við National Geographic að heimamenn hafi flestir enga reynslu af því að eiga í nánum samræðum við ferðamenn sem heimsækja eyjuna. Hann segir að núna hafi opnast gluggi til að breyta um kúrs.
Mallorca hafi upp á svo margt að bjóða fyrir fólk sem vilji njóta náttúrunnar án stöðugra partía. Þar eru svæði sem eru friðuð vegna einstakrar náttúru og heimsminja. Og þar sem líf okkar allra hefur breyst vegna heimsfaraldursins getur verið að enn fleiri eigi eftir að sækja í nákvæmlega þannig frí en áður. Frí þar sem valin er gisting á stöðum sem heimamenn reka og frí þar sem fjöllin, fuglalífið, ólífu- og ávaxtaakrarnir fá meiri athygli en botninn á bjór- og sangríuglösunum.