Alls námu tekjur Icelandair á öðrum ársfjórðungi um 60 milljónum dala, sem samsvarar tæplega 8,3 milljörðum króna á gengi dagsins, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fyrir ársfjórðunginn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var til kauphallar í morgun. Á sama tíma í fyrra námu tekjur félagsins rúmlega 400 milljónum dala, eða um og samdrátturinn því um 85 prósent.
Rekstrarniðurstaða félagsins fyrir fjármagnsliði og skatta verður neikvæð um 100 til 110 milljónir dala á fjórðungnum eða sem samsvarar 13,7 milljörðum til 15,1 milljarðs króna, að því er fram kemur í tilkynningu. Þá nemur handbært fé og jafngildi handbærs fjár 154 milljónum dala, eða rúmum 21 milljarði króna. Niðurstaða annars ársfjórðungs verður birt 27. júlí næstkomandi.
Í gær greindi Fréttablaðið frá því að félagið ætlaði að ljúka viðræðum við lánardrottna, Boeing og stjórnvöld fyrir lok mánaðar áður en farið verður í hlutafjárútboð. Í kauphallartilkynningu Icelandair segir að viðræður við hlutaðeigandi aðila séu langt á veg komnar. Gert er ráð fyrir að samkomulagi verði náð fyrir lok mánaðar og stefnir félagið á hlutafjárútboð í ágúst.
Eitt af þeim atriðum sem enn er óleyst fyrir hlutafjárútboð er samningur við flugfreyjur félagsins. Atkvæðagreiðsla um nýundirritaðan kjarasamning milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands hefst á morgun og stendur til 27. júlí. Nú þegar hafa flugmenn og flugvirkjar skrifað undir nýja samninga sem skila sér í rekstrarhagræði fyrir félagið.
Í fréttaskýringu Kjarnans frá því í maí kom fram að viðmælendur væru sammála um að það fé sem sótt verði í hlutafjárútboðinu yrði ekki sótt til erlendra fjárfesta. Vonir eru helst bundnar við að lífeyrissjóðirnir taki þátt í útboðinu enda fáir aðilar á innlendum markaði með álíka bolmagn til fjárfestinga. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga auk þess stóran hlut í félaginu.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagst munu beita sér fyrir því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna taki ekki þátt í hlutafjárútboðinu. Í síðustu viku beindi stjórn VR þeim tilmælum til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti einstaki eigandi Icelandair en sjóðurinn heldur á tæplega 12 prósent hlut í félaginu.
Í kjölfarið sá Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, ástæðu til að minna á sjálfstæði stjórnarmanna og að fylgst væri með framgöngu verkalýðsforystunnar í tengslum við aðkomu Lífeyrissjóð verzlunarmanna að Icelandair.