Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir engar umræður uppi hér á landi um að breyta leiðbeiningum um einangrun og sóttkví líkt og Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna hefur gert. Þar í landi hefur tilmælum um lengd þessara úrræða í baráttunni gegn kórónuveirunni verið breytt úr fjórtán dögum í tíu. Er það sagt gert út frá nýjustu þekkingu um smithættu.
Þórólfur segir við Kjarnann að hann telji að bæði sóttkví og einangrun hafi vegið þungt í að ráða niðurlögum faraldursins hér. Hann telur veigamikil rök þurfa til að breyta því. „Á þessari stundu tel ég því ekki ástæðu til breytinga.“
Allt frá því faraldur kórónuveirunnar braust út hefur það verið megin reglan að fólk sem komist hefur í tæri við sýkta einstaklinga fari í tveggja vikna sóttkví. Þannig hefur það m.a. verið hér á landi. Að sama skapi hefur víðast hvar verið mælst til þess að fólk sem greinist með veiruna fari í að minnsta kosti tveggja vikna einangrun en jafnvel lengur, eftir alvarleika veikinda þeirra.
Hér á landi eru leiðbeiningarnar þær að þegar fólk er greint með veiruna og virkt smit fer það í að minnsta kosti fjórtán daga einangrun. Læknar COVID-19-teymis Landspítala sjá svo um útskriftarsímtöl fyrir einstaklinga sem útskrifast úr einangrun. Þeir þurfa að uppfylla bæði eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:
- Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarsýni).
- Að hafa verið einkennalausir í 7 daga.
Þá fá allir þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóm í a.m.k. tvær vikur.
Sóttkví vegna COVID-19 er einnig 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram.
Uppfærð tilmæli Smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna eru á þann veg að fólk sem greinst hefur með COVID-19 skuli fara í einangrun í tíu daga eftir að það fær einkenni og vera í einangrun í sólarhring eftir að það verður hitalaust. Fyrir þá sem greinast með veiruna en sýna engin einkenni er samt sem áður mælt með tíu daga einangrun.
Í tilmælum stofnunarinnar er bent á að lítill hluti fólks sem fái alvarleg einkenni geti smitað aðra af veirunni í lengri tíma og því gæti það þurft að vera í einangrun í allt að tuttugu daga.
Í dag eru átta manns í einangrun vegna COVID-19 hér á landi og 91 í sóttkví. Samkvæmt því sem fram kemur á upplýsingasíðunni covid.is hafa alls 22.993 manns lokið sóttkví frá upphafi faraldursins.
57 prósent þeirra sem greindust með veiruna fyrir 15. júní (áður en landamæraskimun hófst) voru í sóttkví við greiningu.
Þegar mest lét í lok mars voru yfir tíu þúsund manns í sóttkví á sama tíma. Þá lágu átján sjúklingar á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins og sex þeirra voru í öndunarvél á gjörgæsludeild.
Tíu hafa látist vegna COVID-19 á Íslandi.