Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, krefjast þess að framkvæmdir Vegagerðarinnar í Vesturdal og við Hljóðakletta í Jökulsárgljúfrum verði stöðvuð. Framkvæmdir hafa staðið yfir síðan fyrr í sumar. Samtökin gera „alvarlegar athugasemdir varðandi verklag í kringum framkvæmdaleyfi og umhverfismat og gera kröfu um að betur sé að gætt þegar um svo dýrmætan stað er að ræða“.
Svæðið sem um ræðir er nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs en hefur verið þjóðgarður síðan 1973. Samtökin hafa sent kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna athafna Vegagerðarinnar og krafist viðurkenningar á ólögmæti þeirra meðal annars.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að um sé að ræða framkvæmdir á hluta Dettifossvegar en sú framkvæmd fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum árið 2006. Stjórn samtakanna telur hins vegar eðli þeirra framkvæmda sem nú standa yfir ekki vera í samræmi við hið fjórtán ára gamla umhverfismat. „Þá kom skýrt fram af hálfu þjóðgarðsyfirvalda að vegabótum um Vesturdal skyldi haldið lágstemmdum til að standa vörð um þá einstöku kyrrð og náttúrufegurð sem einkennir tjaldstæðið í Vesturdal sem vegurinn liggur um. Þess í stað skyldi mæta aukinni umferð með aðkomu að svæðinu upp á Langavatnshöfða, fyrir ofan Hljóðakletta og Vesturdal. Þar er gert ráð fyrir bílastæði fyrir rútur og þá ferðalanga sem staldra [skemur] við en geta notið svæðisins án þess að trufla þá kyrrð sem ríkir í Vesturdal,“ segir í tilkynningunni.
Á meðan verið er að byggja upp áðurnefnda aðkomu að Hljóðaklettum um Langavatnshöfða telja samtökin mikilvægt að vegurinn um Vesturdal samræmist þeirri upplifun sem fylgir því að fara um hann. „Lágstemmdur vegur sem liggur vel í landslaginu og býður upp á að fara sér hægt og njóta þeirrar einstöku náttúrufegurðar sem dalurinn skartar.“
Mikil mistök
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, fyrrverandi þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, sagði í samtali við RÚV að hinn breiði og „mjög upphækkaði“ vegur í Vesturdal sunnan Hljóðakletta, gnæfi yfir tjaldstæði og spilli landslagi. Sagði hún ekki ljóst hver hefði tekið ákvörðun um að hanna svæðið með þessum hætti. Vegagerðin öll væri mjög mikil mistök.
„Vegurinn frá Ásbyrgi að Mývatni á að vera ferðamannavegur en hann virðist fyrst og fremst hafa verið einhverskonar fantasía verkfræðings og gröfustjóra,“ skrifaði rithöfundurinn Andri Snær Magnason á Facebook-síðu sína nýverið. Sagði hann veginn gjörbreyta eðli svæðisins frá Ásbyrgi inn í Hljóðakletta og að vel hefði mátt leggja malbikaðan veg með útskotum eins og gegnum Þingvallahraunið eða í sjálfu Ásbyrgi.
Landslag sem var mikils virði
„Í staðinn er búin til uppbyggð hraðbraut eins og markmiðið sé að komast á sem mestum hraða á milli staða,“ skrifaði Andri. „Í stað þess að Hljóðaklettar séu dularfullur staður inn í landslaginu verða þeir eins og vegasjoppa í vegkantinum. Bestunarmarkmið verkfræðinga um að koma manni á 8 mínútum á staðinn álíka þroskað og að hraðspóla gegnum kvikmynd eða hlaupa gegnum Louvre til að sjá Mónu Lísu og hlaupa út aftur.“
Sagði Andri að Hólssandur hefði verið „kjörið athafnasvæði fyrir hraðbraut og hraðtengingu við Mývatn“ en „yndislega grónar heiðarnar vestan megin Jökulsár voru landslag sem var mikils virði í sjálfu sér en vegurinn tekur ekkert tillit til þeirra. Það er mikilvægt að vera á vaktinni þegar náttúruperlur og landslag eru misskildar svona hrapalega“.