Nokkrir einstaklingar hafa réttarstöðu grunaðra og hafa þeir verið kallaðir til yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara vegna rannsóknar embættisins á starfsemi Samherja, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í hópi grunaðra er uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson en hann er fyrrverandi starfsmaður Samherja. Þetta staðfestir Jóhannes í skriflegu svari til Kjarnans. Hann segist hafa fengið það staðfest frá sínum lögmanni að hann hafi haft réttarstöðu grunaðs í málinu síðan í nóvember á síðasta ári. Hann hafi mætti í skýrslutöku 12. nóvember, sama dag og þáttur Kveiks hafi verið sendur í loftið.
Ekki hefur náðst í Björgólf Jóhannsson, starfandi forstjóra Samherja vegna vinnslu fréttarinnar, hvorki í dag né í gær.
Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um málið hjá Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara. Hann sagði rannsókn standa yfir en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið eins og sakir standa.
Samkvæmt málsgögnum sem lögð voru fram fyrir dómstóla í Namibíu telja rannsakendur þar í landi fimm Íslendinga vera tengda málinu. Auk Jóhannesar eru í málsgögnum nefndir þeir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn aðaleigenda Samherja, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur og í Afríku, Aðalsteinn Helgason, fyrrum starfsmaður Samherja, og Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Mermaria Seafood Namibia.
Samherjamálið komst í hámæli eftir að áðurnefndur þáttur Kveiks fór í loftið í nóvember á síðasta ári en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks. Margra mánaða rannsóknarvinna þeirra sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Í þætti Kveiks gekkst Jóhannes við því að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Hér á landi eru bæði héraðssaksóknari og embætti skattrannsóknarstjóra með mál tengd starfsemi Samherja í Namibíu til rannsóknar.