Fyrir framan Tollhúsið í Reykjavík er stór og djúp hola. Ofan í henni eru menn með appelsínugula hjálma. Þar er líka stór grafa. Og fleiri minni vinnuvélar.
Gatan er lokuð fyrir umferð. En gangstéttin er fær og þar staldra nú margir við og virða fyrir sér listaverk úr milljónum mósaíkflísa – líkt og þeir hafi aldrei séð það áður.
Kannski hafa þeir aldrei séð það áður. Að minnsta kosti ekki virt það fyrir sér. Verkið hefur hingað til verið nokkuð falið, beint fyrir framan það voru bílastæði sem voru alltaf umsetin. Fólk lagði þar, læsti bílnum í snarhasti og stökk svo af stað að sinna erindum sínum í miðborginni.
„Lífleg og fjölbreytileg almenningsrými“ og „aðlaðandi borgarbragur“ eru leiðarljós við endurgerð Tryggvagötunnar sem nú stendur yfir. Markmiðið er að fegra svæðið og leyfa mósaíkverki Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu að njóta sín betur. Framan við verkið verður torg og þar sem svæðið liggur vel við sólu er það talið henta vel sem dvalarsvæði fyrir vegfarendur. Listaverkið verður lýst upp og fær nú efniviðurinn að njóta sín betur en áður á þessum 142 fermetra fleti. Á svæðinu verða einnig litlir „þokuúðarar“, nokkurs konar vatnsskúlptúrar, sem bjóða upp á leik og veita svæðinu ákveðna dulúð.
Með þessum hætti er endurbótunum lýst af Reykjavíkurborg sem stendur að framkvæmdum ásamt Veitum. Lagnir vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu verða endurnýjaðar. Margar þeirra eru komnar til ára sinna, en skólplögnin og kaldavatnslögnin eru frá árinu 1925 og hafa því þjónað íbúum og fyrirtækjum í miðbænum í tæpa öld.
Þegar gatan verður opnuð á ný að framkvæmdum loknum geta bílar ekið um hana aftur. En hún verður þó einstefnugata og um leið skapast rólegra og aðgengilegra rýmri fyrir gangandi.
Í fróðleik um Tollhúsið á vef tollstjórans segir að húsið hafi verið tekið í notkun árið 1971 en arkitekt þess var Gísli Halldórsson. Vegna þess að hafnarskemma náði í gegnum húsið myndaðist þar 250 m² gluggalaus veggflötur út að götu. Byggingarnefnd og arkitekt voru sammála um að slíkur flötur myndi hafa slæm áhrif á heildargötumyndina, ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir til að prýða útlit hússins. Aðilar urðu því sammála um að reikna með því að láta setja þarna upp varanlegt listaverk.
Á þessum tíma fór mikið orð af Gerði Helgadóttur, listakonu, segir í samantektinni. Hafði hún unnið mikið að mósaíklistaverkum í Þýskalandi og víðar. Afráðið var að hafa fyrst samband við hana áður en ákveðið yrði hvort efnt yrði til samkeppni um verkið. Oft hafði verið rætt um að verkið þyrfti að spegla lífið við höfnina, enda hafði höfnin verið lífæð Reykjavíkur síðan hún var gerð.
Þegar rætt var við listakonuna varð hún að trax hugfangin af slíku verki. Varð að samkomulagi að hún fengi teikningar og aðra aðstoð áður en hún færi aftur af landi brott, þar sem hún myndi vinna við tillögurnar erlendis.
Lést tveimur árum eftir að verkið var afhjúpað
Gerður fékk þann tíma sem hún ákvað sjálf að þyrfti, og þegar hún sneri aftur heim lagði hún nokkrar tillögur fram til umræðu. Samþykkt var án tafar að biðja hana um að vinna verkið. Jafnframt var óskað eftir að gera heildarsamning við hana og hið fræga listaverkafyrirtæki í Þýskalandi, Bræðurna Oidtmann, en Gerður hafði lengi starfað með þeim að uppsetningu frægra listaverka víða um Evrópu. Samningar tókust og Gerður vann listaverkið undir uppsetningu á verkstæði þeirra bræðra, sem sáu síðan um uppsetningu á Tollhúsið.
Allt verkið var einstaklega vel af hendi leyst, bæði af hálfu Gerðar Helgadóttur og Oidtmannbræðra, segir í samantektinni. Hefur það æ síðan staðist óblíða íslenska veðráttu.
Það tók Gerði um tvö ár að vinna verkið, sem var unnið og sett upp á árunum 1972 og 1973. Listakonan lést tveimur árum eftir að Tollhúsverkið var klárað, aðeins 47 ára gömul.