Núverandi kjörtímabili Alþingis lýkur þann 28. október árið 2021 og hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nú ákveðið að stefnt skuli að því að næsti kjördagur verði síðasta laugardag í september á næsta ári – eða þann 25.
Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Katrín sagði í samtali við Kjarnann í lok febrúar að hún útilokaði ekki að alþingiskosningar yrðu að vori 2021. Hún benti hins vegar á að núverandi kjörtímabili yrði til loka október á næsta ári og því væri eðlilegt að kjósa þá. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar, hafði þá sagt nokkrum dögum fyrr í Silfrinu: „Ef ég á að segja hug minn allan þá segi ég; það kostar blóð, svita og tár að komast til valda. Af hverju í ósköpunum ætti maður að gefa það frá sér hálfu ári áður en að lög segja til um?“
Frá árinu 2007 hefur það gerst einu sinni að ríkisstjórn á Íslandi hefur setið heilt kjörtímabil. Sú tók við völdum 2009, fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin, og skilaði sér yfir endalínuna 2013 sem minnihlutastjórn.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var fyrst mynduð í febrúar 2009 sem minnihlutastjórn, er líka eina ríkisstjórn eftirhrunsáranna sem hefur tekist að bæta við sig fylgi í næstu kosningum eftir að hún var mynduð. Þær fóru reyndar fram tæpum þremur mánuðum eftir að ríkisstjórnin varð til í febrúar 2009. Í næstu kosningum á eftir upplifðu Samfylkingin og Vinstri græn mesta afhroð sem ríkisstjórn í lýðveldissögunni hefur orðið fyrir, þegar rúmlega helmingur fylgis þeirra leitaði annað.
Því hafa allar ríkisstjórnir sem myndaðar hafa verið frá 2009 fallið í næstu kosningum á eftir.