Kate Bingham, sem leiðir starfshóp breskra stjórnvalda um þróun og framleiðslu bóluefnis gegn kórónuveirunni, hefur takmarkaðar vonir um að þau bóluefni sem verið er að þróa og hafa gefið tilefni til bjartsýni að undanförnu muni verða „töfralausn“. Ólíklegt sé að bóluefni líti dagsins ljós sem veiti varanlegt ónæmi gegn COVID-19.
Þetta segir Bingham í viðtali við breska blaðið Financial Times. Hennar mat er að líklegra sé að bóluefni finnist sem veiti ónæmi tímabundið, til dæmis eitt ár í senn, eða þá að bóluefni komi á markað sem veiti í raun ekki ónæmi heldur dragi úr áhrifum sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur.
Bingham leiðir þá vinnu sem á sér stað á vegum breskra stjórnvalda um að styðja við þróun, framleiðslu og dreifingu bóluefnis þar innanlands. Hún segir Financial Times að hún sé kvíðin yfir því að fólk telji að bóluefnið verði töfralausn, en í því samhengi notar hún orðið silfurkúla (e. silver bullet) til þess að lýsa því sem hún á við, en það orðfæri er notað á ensku yfir einfaldar töfralausnir á flóknum vandamálum.
„Það mun líklega ekki verða,“ segir hún, og telur líklegra að komi bóluefni á markað séu líkur á að það þurfi að endurbólusetja fólk árlega til þess að halda ónæminu virku.
Eins og kom fram í samantekt um þróun bóluefna hér á Kjarnanum í gær hafa nýlegar rannsóknir á þeim sem smitast hafa af COVID-19 sýnt fram á að styrkur mótefna sem ónæmiskerfið myndar gegn kórónuveirunni minnkar með tímanum.
Þetta hefur dregið úr vonum um að hægt verði að þróa bóluefni sem veiti langtímavörn gegn veirunni, þrátt fyrir að sérfræðingar séu að reyna sitt besta. Bingham segir þó að „við verðum að sætta okkur við“ að þegar allt komi til alls verði ef til vill einungis hægt að draga úr einkennum veirusýkingarinnar.
Hún bendir á að aldrei fyrr hafi tekist að þróa bóluefni gegn nokkurri kórónuveiru, en sú nýja sem hefur verið á flugi um heimsbyggðina undanfarið hálft ár, er ein af alls sjö kórónuveirum sem borist geta í menn.