Í dag mun koma í ljós hvort að aðgerðir gegn útbreiðslu kórónuveirunnar verði hertar að nýju, bæði innanlands og við landamærin. Beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatökum gærdagsins og raðgreiningu sem mun varpa ljósi á uppruna veirunnar sem greinst hefur hjá fólki hér á landi síðustu daga. Í gær voru 24 virk smit í landinu. Þar af höfðu fjórtán smitast innanlands og ekki var vitað um uppruna tveggja smitanna. Ekki hafa jafnmargir verið sýktir af COVID-19 samtímis síðan í byrjun maí.
Sjö einstaklingar á Akranesi hafa greinst með veiruna. Þeir eru vinnufélagar og búa saman í tveimur íbúðum í bænum. Heimsóknarbann hefur verið sett á hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Alma Möller landlæknir sagði við RÚV í gærkvöldi að niðurstöður úr sýnatökum og raðgreiningu ættu að liggja fyrir snemma í dag.
Þróunin ógnvekjandi
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í fréttum RÚV í gær að hann hefði áhyggjur af því að kórónuveiran væri aftur komin á flug á Íslandi og sagði að þróun síðustu daga væri ógnvekjandi.
Sagði Kári það áhyggjuefni að þrír einstaklingar væru nú sýktir af veiru sem allt benti til að væri komin frá sömu uppsprettu. Þremenningarnir virtust hins vegar ekki tengjast á nokkurn hátt, „og það leiðir mann að þeirri niðurstöðu að það hljóti að vera einstaklingar milli þessara aðila þannig að það séu fleiri úti í samfélaginu sýktir af þessari veiru úr sama stofni,“ sagði Kári við RÚV. Einnig tók hann fram að sumir þeirra sem greinst hefðu síðustu daga hefðu verið með mikið magn veirunnar í líkamanum og því mjög smitandi.
Fyrirtækið hefur hafið skimun fyrir veirunni í samfélaginu á ný auk þess sem það sinnir raðgreiningum til að finna uppruna veirunnar.
Óvissa, hætta, neyð
Þann 27. janúar var lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna nýju veirunnar sem þá var farin að breiðast út um heiminn. Um mánuði síðar eða þann 28. febrúar, sama dag og fyrsta smit kórónuveirunnar greindist hér á landi, lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis.
Aðeins nokkrum dögum síðar, þann 6. mars, var viðbúnaðurinn svo hækkaður upp á neyðarstig þegar fyrstu innanlandssmitin voru staðfest. Tíu manns áttu eftir að deyja vegna COVID-19 og hundruð eftir að sýkjast áður en ákveðið var að lækka almannavarnastigið niður í hættustig á ný þann 25. maí.
Skilgreining á hættustigi vegna heimsfaraldurs er eftirfarandi: „Umtalsverðar hópsýkingar brjótast út hjá mönnum en þær eru enn staðbundnar. Veiran aðlagast mönnum í vaxandi mæli og umtalsverð hætta er á heimsfaraldri. Sýking kann að hafa verið staðfest hér á landi en lýsa má hættustigi þó sýking hafi ekki borist til landsins. Faraldur er í rénun, færri tilfelli greinast en sýking er enn til staðar í samfélaginu. Enn er hætta á að faraldur taki sig upp aftur.“
Í tilkynningu almannavarna á sínum tíma um hækkun upp á neyðarstig kom fram að „virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig“ en að á neyðarstigi væri unnið eftir ýmsum ráðstöfunum, m.a. áætlunum um vöktun og farsóttargreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum væri beitt.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að til greina kæmi að breyta viðbúnaðarstigi vegna nýju smitanna sem greinst hafa síðustu daga. Hættustig er enn í gildi en það kann þá að breytast í dag en almannavarnir, landlæknir og fulltrúi sóttvarnalæknis munu hittast á fundi snemma dags og taka ákvörðun um næstu skref.