Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji greinir frá því á vef sínum í dag að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfsemi félagsins í Namibíu, sem unnin var að beiðni Samherja, sé lokið. Niðurstöðurnar hafi verið kynnt fyrir stjórn félagsins.
Á vef Samherja er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni stjórnarformanni félagsins að á næstu dögum muni Samherji „fjalla nánar um niðurstöður rannsóknarinnar og hrekja þær ásakanir sem vöktu hörð viðbrögð hjá okkur strax þegar þær voru settar fram í fyrra.“
Samkomulag um fund Wikborg Rein og héraðssaksóknara
Í tilkynningu félagsins segir að Samherji muni áfram eiga samskipti við þar til bær stjórnvöld sem sýnt hafi vilja til samvinnu, auk þess sem fyrirtækið hafi boðið fram aðstoð sína vegna rannsókna á ásökunum tengdum starfseminni í Namibíu, sem fram komu í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera í nóvember í fyrra.
Að sögn Samherja liggur fyrir fyrir samkomulag um að lögmenn Wikborg Rein eigi fund með embætti héraðssaksóknara með haustinu. Þá hafi nokkrir fundir verið haldnir með fulltrúum namibískra stjórnvalda til að kanna grundvöll fyrir svipuðu samstarfi við þau.
Greint var frá því í Kjarnanum í síðustu viku að nokkrir einstaklingar, þeirra á meðal Jóhannes Stefánsson fyrrverandi starfsmaður hjá Samherjasamstæðunni í Namibíu og síðar uppljóstrari, væru með réttarstöðu grunaðra hér á landi vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara.
Hafna því að stjórnendur hafi hlutast til um vafasama viðskiptahætti
„Við höfum virt allt þetta ferli og leyft rannsókninni að hafa sinn gang. Af þessum sökum höfum við ekki brugðist opinberlega við öllum ásökunum þrátt fyrir að full ástæða hafi verið til þess frá upphafi. Að sama skapi viljum við að rannsóknir opinberra aðila gangi eðlilega fyrir sig. Engu að síður munum við á næstu vikum taka skýrari afstöðu opinberlega til einstakra mála og fjalla nánar um einstök atriði en við höfum gert hingað til.
Þá ber að undirstrika að Samherji hafnar því alfarið að stjórnendur fyrirtækisins hafi nokkru sinni hlutast til um að nokkurt dótturfyrirtækja þess stundaði vafasama viðskiptahætti, þar á meðal mútugreiðslur eða peningaþvætti, í því skyni að ná fram fjárhagslegum ávinningi og mun andmæla kröftuglega frekari ásökunum í þá veru,“ er haft eftir Eiríki á vef Samherja.
Birting niðurstaðna Wikborg Rein ýmsu háð
Á vef Samherja segir að þegar Wikborg Rein hafi fundað með fulltrúum viðeigandi stjórnvalda þurfi að taka afstöðu til fjölmargra atriða, meðal annars þess „hvaða niðurstöður rannsóknarinnar er hægt að birta opinberlega og hvernig.“
„Í því sambandi þarf að meta hvort birting kunni að hafa áhrif á rannsóknir í öðrum ríkjum. Þá þarf að meta hvort birting á upplýsingum gangi í berhögg við lög og reglur vegna þeirra einstaklinga sem kunna að koma við sögu. Ýmis fleiri atriði þarf að taka til skoðunar í þessu sambandi,“ segir í tilkynningu Samherja.