Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og fráfarandi varaforseti þess, ætlar að funda með Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands hér á landi, á föstudag til að ræða stöðuna og til að koma sínum athugasemdum á framfæri í kjölfar þess að Pólland ætlar að draga sig út úr Istanbúlsamningnum.
Istanbúlsamningurinn er samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Hann var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 en hér landi var hann fullgiltur í apríl 2018.
Myndi hafa alvarlegar afleiðingar
Í samtali við Kjarnann segir Rósa Björk Istanbúlsamninginn vera einn mikilvægasta samning Evrópuráðsins og eitt öflugasta tæki til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi, heimilisofbeldi og þvinguðum hjónaböndum. Það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir líf kvenna og stúlkna í Póllandi ef Pólverjar segja sig frá samningnum.
„Pólsk stjórnvöld hafa í raun og veru verið að búa til misskilning og undirróður því þau segja að Istanbúlsamningurinn grafi undan hinum íhaldssamari gildum hjónabandsins, sem er náttúrlega vitleysa og rangfærslur. Þau hafa notað Istanbúlsamninginn í þessum leiðangri sínum til að draga verulega úr réttindum samkynhneigðra,“ segir Rósa sem ætlar einnig að ræða málefni samkynhneigðra í Póllandi á fundi hennar við sendiherrann.
„Pólland var engu að síður eitt af þeim löndum sem var fyrst til þess að fullgilda samninginn og það yrðu alveg ótrúlega miklir álitshnekkir fyrir Pólland að draga sig frá þessum samningi, burtséð frá því hversu alvarleg ógn það yrði fyrir líf og heilsu pólskra kvenna og stúlkna,“ segir Rósa.
Samningurinn mætir mótstöðu víðar
Hún telur ekki líklegt að önnur lönd segi sig frá samningnum en hann hefur engu að síður mætt andstöðu. Til að mynda hafi stjórnarskrárdómstóll Búlgaríu reynt að hnekkja því að Istanbúlsamningurinn hafi lagalega stoð þar í landi.
Þar að auki hafi byggst upp mótstaða í Rússlandi með stuðningi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. „Rússland sem var að koma aftur inn í Evrópuráðið eftir fimm ára hlé, þeir hafa ekki enn skrifað undir Istanbúlsamninginn og breytingar á stjórnarskránni nýlega í Rússlandi voru þess eðlis að eitt af því sem var í þeim breytingum var þetta íhaldssama fyrirkomulag á hjónabandi, að það geti bara verið milli karls og konu,“ segir Rósa.
„Við sem erum í Evrópuráðinu sjáum að það eru þessi afturhaldssömu öfl sem kynda undir kvenfyrirlitningu sem hafa verið að grafa undan Istanbúlsamningnum með því að sá efasemdarfræjum um hann sem eru byggð á fullkomnum misskilningi og útúrsnúningi,“ segir Rósa að lokum.