Víða um heim er notkun andlitsgríma á almannafæri orðin útbreidd enda ýmist mælt með henni eða hún bókstaflega skylda. Samkvæmt hertum aðgerðum sem taka gildi hér á landi á morgun er þess krafist að fólk noti andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra reglu milli ótengdra aðila. Þar með er Ísland fyrst Norðurlandanna til að setja á kröfur um notkun andlitsgríma en slíkt hefur þó verið til umræðu í Danmörku.
Norðurlöndin hafa til þessa verið nokkuð sér á báti þegar kemur að notkun gríma á almannafæri. Allt frá því heimsfaraldur kórónuveirunnar braust út hefur hvert landið á fætur öðru ýmist mælt með notkun gríma á tilteknum stöðum eða hreinlega krafist slíkrar notkunar.
Í Reykjavík hefur það verið algjör undantekning að sjá fólk með andlitsgrímur t.d. í verslunum og strætisvögnum og sömu sögu er að segja frá höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Það eru einna helst erlendir ferðamenn, sem eru orðnir vanir notkun þeirra í sínum heimalöndum, sem ganga um með grímurnar fyrir nefi og munni.
Í nýlegri könnun YouGov sögðust aðeins 5-10 prósent svarenda frá Norðurlöndum bera grímur á almannafæri og þannig hefur hlutfallið verið allt frá því að könnun á þessu var fyrst gerð í mars, segir í frétt AFP. Könnun YouGov er gerð í yfir tuttugu löndum og utan Norðurlandanna blasir allt annar veruleiki við. Um 70-80 prósent svarenda könnunarinnar í þeim löndum segjast nú hafa grímur fyrir vitum á almannafæri. Það á m.a. við þátttakendur sem búsettir eru í Bandaríkjunum og á Indlandi.
Útlendingar sem heimsótt hafa Norðurlöndin eru sagðir hissa á því hversu fáir séu með grímur. Í frétt AFP er haft eftir franskri konu að sér hafi brugðið er hún kom til Stokkhólms af þessum sökum. „Ég held að ef ríkisstjórnir mæli ekki eindregið með notkun gríma þá noti þær enginn.“
Aldraður Svíi sem einnig er rætt við í fréttinni segist vilja að stjórnvöld þar í landi biðji fólk að bera grímur, að minnsta kosti í almenningssamgöngum. „Ef enginn er með grímu ætla ég ekki heldur að gera það.“
Sömu svör gefur fimmtugur karlmaður sem rætt er við. „Ef þeir segja að við þurfum ekki grímur þá erum við ekki að fara vera með þær.“
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, var í gær spurður hvort að til greina kæmi að hvetja til grímunotkunar og sagðist hann enn vera bíða eftir „einhvers konar sönnun fyrir því að þær virki“.
Faraldurinn hefur verið skæðari í Svíþjóð en annars staðar á Norðurlöndunum þar sem tilfelli af COVID-19 hafa verið tiltölulega fá miðað við víðast annars staðar. „Þannig að ég skil vel að þeir [mæli ekki með grímum] svo lengi sem fjarlægðarreglur og smitrakning er tekin alvarlega,“ hefur AFP eftir KK Cheng, faraldsfræðingi við háskólann í Birmingham.
Eftir að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin breytti leiðbeiningum sínum um grímunotkun í júní ákváðu dönsk yfirvöld að hvetja fólk til að vera með grímur ef það væri að fara á sjúkrahús í sýnatöku eða þegar það væri að koma aftur til landsins eftir að hafa dvalið á áhættusvæði.
Mögulega breyting í framtíðinni
Yfirlæknir Danmerkur sagði við danska ríkisútvarpið í fyrradag að á meðan tilfellin væru fá væri tilgangslítið að mæla með því að fólk hyldi vit sín með grímu. Hins vegar gæti vel verið að það myndi breytast og minntist hann í því samhengi á að mögulega þyrfti að bera grímur í almenningssamgöngum í framtíðinni.
Sömu sögu er að segja frá Noregi og Finnlandi. Mögulega verður mælst til grímunotkunar í framtíðinni, jafnvel þeirri nánustu.
Í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins um hertar aðgerðir sem taka gildi á hádegi á morgun ,föstudag, segir orðrétt um grímunotkun: „Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leiðbeiningum sóttvarnalæknis.“