Unnið er að því á skrifstofum sóttvarnalæknis að smíða reglur eða leiðbeiningar um notkun andlitsgríma og ættu slíkar reglur að vera kynntar síðar í dag eða í fyrramálið, samkvæmt svari Jóhanns K. Jóhannssonar samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans.
Grímuskylda við ákveðnar aðstæður verður nýr veruleiki á Íslandi frá og með morgundeginum. Greint hefur verið frá því í dag að andlitsgrímur hafi rokið út úr þeim verslunum sem selja þær frá því að tilkynnt var að næstu vikur hið minnsta ætti að bera grímu í almenningssamgöngum; í strætó, innanlandsflugi og ferjusiglingum.
Á blaðamannafundi yfirvalda í dag komu þó ekki fram upplýsingar eða leiðbeiningar um hvers konar grímur væri best að nota, en einungis sagði að grímurnar ættu að ná yfir bæði munn og nef. Einnota grímur hafa flogið út úr apótekum og fleiri verslunum sem þær selja, en einnig er víða hægt að kaupa taugrímur.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis þar sem grímuskyldan var lögð til við ákveðnar aðstæður segir að þær grímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu „að lágmarki að uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna CEN.“
Leiðbeiningar frá WHO
Mismunandi leiðbeiningar um notkun þessara ólíku tegunda andlitsgríma á tímum kórónuveirunnar hafa þegar verið gefnar út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) og eru aðgengilegar á ensku á vef stofnunarinnar.
Áhersla er þar lögð á hreinlæti, en til dæmis er mikilvægt er að þvo sér vel um hendur áður en bæði tau- og einnota grímur eru settar á andlitið. Einnig ætti fólk að gæta varúðar þegar það losar sig við einnota grímur og passa að þær fari í lokaðar ruslatunnur.
WHO gaf út skýringarmyndband fyrr í sumar þar sem útskýrt er við hvaða aðstæður æskilegt er að nota hverja tegund fyrir sig, en sérstaklega er mælt með einnota grímum fyrir heilbrigðisstarfsmenn, þá sem eru með einkenni veirunnar, auk eldra fólks og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eru í áhættuhópi vegna COVID.
Stofnunin segir taugrímur viðeigandi fyrir þá sem ekki hafa nein einkenni COVID-19 í aðstæðum á borð við þær sem kalla á grímunotkunin hér á landi, þ.e. í aðstæðum þar sem ekki er hægt að tryggja nægileg fjarlægðarmörk á milli fólks.