Þegar sæskjaldbökur klekjast úr eggjum sínum og koma upp úr sandi strandanna skríða þær í ofboði til sjávar og hverfa svo sjónum ofan í hið stóra haf. Mörgum árum seinna koma svo kvendýrin aftur til nákvæmlega sömu strandar og þau klöktust út á. Þá hafa þau sum hver farið mörg þúsund kílómetra leið. Og þegar þau snúa til baka gera þau það í einum tilgangi: Að verpa eggjum sínum.
Svo hefst þessi hringrás á ný. Og svo kynslóð fram af kynslóð.
Lengi hefur verið talið að risaskjaldbökurnar sem synda um í heimshöfunum noti segulsvið jarðar til að rata en margt hefur þó verið á huldu um hegðun þeirra. Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru nýverið í vísindatímaritinu Current Biology, og gerð var m.a. með því að setja GPS-tæki á risaskjaldbökur, kemur fram að þó að þær hafi að lokum fundið ströndina sína hafi þær ekki synt þangað stystu leið. Þær notist því við nokkurs konar gróft landakort á ferðalaginu.
„Ég held að við höfum haft þá ímynd í höfðinu að skjaldbökur ferðuðust um eins og lest á teinum,“ segir Alex Rattray, meðhöfundur rannsóknarinnar og vísindamaður við Deakin-háskóla í Ástralíu. „En við komumst að því að þær gera mistök, þær hitta ekki á áfangastaðinn, þær fara fram hjá honum og að þær leita hans mikið.“
Skjaldbökurnar snúa ekki aðeins aftur til fæðingarstaðar síns heldur fara þær líka aftur og aftur til sömu svæða í ætisleit. Aðrar rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á að svo heitbundnar eru þær ætisstöðvum sínum að þær synda jafnvel framhjá svæðum þar sem mun meira æti er að finna.
Vísindamennirnir sem þátt tóku í rannsókninni festu GPS-tæki á 35 sæskjaldbökur er þær voru á varpstöðvum sínum. Um leið og þær höfðu orpið fóru þær í sjóinn og leituðu uppi ætisstöðvarnar. En þangað fóru þær fæstar beina leið. Margar þeirra fóru oft mörg hundruð kílómetra af leið áður en að því kom.
„Okkur kom einnig á óvart hversu langa leið sumar þeirra fara,“ var haft eftir Graeme Hays, aðalhöfundi rannsóknarinnar sem er prófessor við Deakin-háskóla, í tilkynningu um rannsóknina. „Sex af skjaldbökunum fóru meira en 4.000 kílómetra leið með austurströnd Afríku, frá Mósambík til Sómalíu. Þannig að þessar skjaldbökur fara meira en 8.000 kílómetra fram og til baka frá varpstöðvum sínum á Chagos-eyjum.“
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þó að dýrin virtust oft villast af leið um tíma hefðu þau hæfileika til að taka rétta stefnu á ný. Engin þeirra villtist algjörlega. „Þær fundu að lokum leiðina heim,“ er haft eftir Rattray í tilkynningu. „Þetta eru ótrúlegar skepnur. Og þær eru sannarlega mestu sæfarar jarðar.“
Grænar risaskjaldbökur, eins og þær sem fylgst var með í rannsókninni, eru í útrýmingarhættu. Net og eyðilegging búsvæða er þeirra helsta ógn.