Í liðinni viku sendi Gallup út netkönnun á viðhorfahóp sinn, þar sem meðal annars var spurt hversu mikið traust fólk bæri til sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja og hvort fólk væri ánægt eða óánægt með „aðgerðir Samherja í kjölfar ásakana um mútur í Namibíu“.
Sjávarútvegsfyrirtækið virðist þannig vera að mæla álit almennings á sjálfu sér og viðbrögðunum við uppljóstrunum um starfsemi félagsins í Namibíu, en síðasta miðvikudag var einmitt tilkynnt að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á málinu væri lokið.
Samherji gaf það þá út að fyrirtækið ætlaði á næstu vikum að taka „skýrari afstöðu opinberlega“ til þeirra ásakana sem fyrirtækið hefur staðið frammi fyrir og eru til rannsóknar bæði hér heima og í Namibíu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gallup tekur púlsinn á því hver ímynd fyrirtækisins í hugum landsmanna frá því að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í nóvember í fyrra. Snemma í desember voru þeir sem eru í viðhorfahópi Gallup meðal annars spurðir út í það hvort þeir bæru traust til Björgólfs Jóhannssonar, sem þá hafði nýlega tekið við stjórnartaumunum hjá félaginu eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri steig til hliðar.
Nokkrir með stöðu grunaðra manna hér á landi
Kjarninn greindi frá því fyrr í mánuðinum að Jóhannes Stefánsson fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu og fleiri ótilgreindir aðilar væru með réttarstöðu grunaðra manna vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara á málinu hérlendis.
Samherji sagði í tilkynningu sinni á miðvikudag að búið væri að komast að samkomulagi um að fulltrúar frá Wikborg Rein myndu funda með embætti héraðssaksóknara „með haustinu“. Þar sagði einnig að starfsmenn lögmannsstofunnar hefðu farið yfir og greint meira en milljón skjöl á þeim átta mánuðum sem þeir hafa skoðað málefni Samherja í Namibíu.
„Við höfum varið miklum tíma og fjármunum í þetta ferli,“ var haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni stjórnarformanni Samherja, sem einnig sagði að ásakanirnar sem komið hafa fram hefðu dregið upp „afbakaða mynd af starfsemi Samherja“.