Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir aðra af tveimur stórum hópsýkingum sem nú hafa komið upp hér á landi. Í hinni stóru sýkingunni er hins vegar ekki enn búið að komast að uppruna hennar sem er áhyggjuefni að hans mati. Hann sagði óhætt að segja að „þessi aukning sem sést hefur hér á landi er ákveðin vonbrigði en þetta var ekki óviðbúið. Við höfum oft talað um að faraldurinn er í sókn í heiminum og hefur verið að ná sér á strik í mörgum löndum og að viðbúið að hingað kæmu inn smit“.
Frá 15. júní hafa um 95 þúsund manns komið til landsins og sýni verið tekin frá um 62 þúsund. Alls hafa 25 greinst með virkt smit í landamæraskimun en tæplega 100 með gamalt. Af þeim 25 sem greinst hafa með smit við komuna til landsins eru tíu búsettir á Íslandi. En hinir koma frá löndum sem flokkast sem áhættusvæði fyrir utan tvo sem komu frá Danmörku. Þórólfur sagði rétt að árétta að mjög fá smit hefðu orðið út frá þeim sem greinst hafa á landamærum.
Ellefu greindust með innanlandssmit í gær. Enn er beðið eftir raðgreiningu og smitrakningu til að kanna uppruna. Frá 15. júní hafa 50 einstaklingar greinst með innanlandssmit. „Það er athyglisvert að flest innanlandssmitin tilheyra tveimur stofnum af veirunni sem náð hafa að dreifa sér,“ sagði Þórólfur.
Líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir smit sem olli öðru hópsmitinu ef sá sem kom með veiruna til landsins hefði farið í sýnatöku tvö eins og reglur í dag gera ráð fyrir. Í hinu tilvikinu hefur ekki tekist að rekja uppruna smitsins. Flest smit hér innanlands tengjast þessari hópsýkingu. „Tengsl á milli einstaklinganna eru ekki ljós og leiðir það líkum að því að útbreiðsla gæti verið meiri en við vitum um,“ sagði Þórólfur.
Síðustu mánuði hefur Þórólfur bent á að búast mætti við litlum hópsýkingum þrátt fyrir víðtækar ráðstafanir. Sú hefur nú orðið raunin. „Ég tel nú eins og áður að til lengri tíma er nánast vonlaust að koma í veg fyrir það algjörlega að veiran berist hingað til lands. Við þurfum að vera undir það búin.“
Landamæraskimun hefur skilað árangri
Þórólfur velti svo upp þeirri spurningu hvort að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þær hópsýkingar sem nú eru hér á landi. Hann sagði landamæraskimanir hafa skilað árangri – á því væri enginn vafi. Ef þeir 25 einstaklingar sem hafa greinst í skimun hefðu komið inn í landið án allra takmarkanna væri rétt hægt að ímynda sér hvers konar faraldur hefði getað komið upp.
Þórólfur sagði að nokkrir af þessum 25 hefðu að líkindum greinst í sýnatöku 2. „Við erum að nýta reynslu og upplýsingar sem við fáum til að skerpa á aðgerðum til að lágmarka áhættuna á því að veiran komi hingað.“
Varðandi innlendu hópsýkingarnar þá sagðist Þórólfur halda að aðra hópsýkinguna hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef viðkomandi hefði farið í sýnatöku tvö.
„Hin hópsýkingin er stærri og víðtækari,“ benti Þórólfur á. „Þar hefur ekki tekist að rekja upprunann og er það ákveðið áhyggjuefni. Ljóst að veiran hefur komið hingað á einhvern máta og spurning hvort við munum nokkrum tímann komast að því.“
Íþyngandi aðgerðir en nauðsynlegar
Svo sagði Þórólfur: „Í þessari hópsýkingu hafa sýkingarvarnir innanlands brugðist að ákveðnum marki. Það verður ekki útbreiðsla á veirusýkingum ef við gætum að okkar einstaklingsbundnu sýkingavörnum. Það er ljóst að verulega hefur verið slakað á í þeim efnum af okkur öllum.“
Sóttvarnalæknir sagðist gera sér grein fyrir því að aðgerðirnar núna væru íþyngjandi fyrir marga. En að þær væru nauðsynlegar, „til að forða okkur frá útbreiddum faraldri og alvarlegum afleiðingum hans.“
Hann benti svo á að það tæki 1-2 vikur að sjá árangur af þeim aðgerðum sem nú eru í gildi. „Það er ljóst að ef við sjáum ekki árangur af þessum aðgerðum þurfum við að vera tilbúin að grípa til harðari aðgerða.“
Baráttan við faraldurinn mun að sögn Þórólfs halda áfram. „Aðgerðir okkar í dag eru ekki að miða að því endilega að halda Íslandi veirufríu heldur að lágmarka dreifingu og áhættu sem af veirunni stafar. Þar eru einstaklingsbundnu sýkingavarnirnar mikilvægastar.“
Skoðun Þórólfs á grímum ekki breyst
Hvað notkun gríma varðar sagði hann það enn sína skoðun að almenn notkun gríma myndi sennilega ekki skila miklu og gefa jafnvel falska öryggiskennd. „Þetta hefur ekki breyst í mínum huga.“
Hins vegar hafi leiðbeiningar frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) breyst og rannsóknir sýnt að við vissar aðstæður, þar sem ekki er hægt að viðhalda fjarlægðarmörkum milli fólks, geti þær gert gagn. „Og það er akkúrat það sem við erum að nýta okkur“.
Sóttvarnalæknir minnti að lokum á að samstaða hefði einkennt allar aðgerðir sem gripið hefði verið til hér á landi til þessa. „Við höfum sýnt það fram að þessu og við getum gert það áfram.“