Yfirvöld í Malasíu berjast nú við að fegra ímynd pálmaolíunnar en landið er næststærsti framleiðandi vörunnar, á eftir Indónesíu. Þeirra nýjasta vopn í baráttunni er slagorðið „Pálmaolía er guðsgjöf“ sem yfirvöld hyggjast nota í markaðssetningu.
Pálmaolía hefur mætt andstöðu víða um heim vegna þeirra áhrifa sem ræktunin hefur á umhverfið og er markaðssetningunni ætlað að stemma stigu við þeirri andstöðu. Í frétt Reuters er haft eftir Willie Mongin, ráðherra plantekru- og hrávörumála í Malasíu, að malasísk stjórnvöld séu staðráðin í að nota slagorðið í markaðssetningu bæði í Malasíu og alþjóðlega.
Nýja slagorðið kemur í stað eldra slagorðs sem gæti útleggst sem „Elska pálmaolíuna mína“ sem notað var í markaðssetningu innan Malasíu. Slagorðinu var ætlað að efla stolt íbúa Malasíu fyrir þarlendum pálmaolíuiðnaði en mátti þá sæta gagnrýni víða að.
Alls er 28 prósent af allri pálmaolíu framleidd í Malasíu og fer landið með þriðjungshlutdeild í milliríkjaviðskiptum með vöruna. Ríki Evrópusambandsins flytja inn mikið magn pálmaolíu en nú hefur hugarfar Evrópubúa til vörunnar breyst og sífellt fleiri málafylgjumenn tala gegn olíunni.
Pálmaolía bönnuð í lífdísli
Á síðasta ári samþykktu ríki Evrópusambandsins að banna í skrefum eldsneyti sem unnið er úr pálmaolíu, svokallaðan lífdísil. Lífdísill sem unnin er úr pálmaolíu verður því horfinn af markaði í Evrópu árið 2030. En pálmaolíu er víðar að finna heldur en í eldsneyti. Alþjóðleg stórfyrirtæki nota olíuna í framleiðslu sinni á ólíkum vörum. Svo dæmi séu tekin má hana finna í snyrtivörum, þvottaefni og í alls kyns matvælum, svo sem í kexi, ís, brauði og súkkulaði.
Á síðasta ári var lögð fram þingsályktunartillaga sem miðaði að því að banna lífdísil sem unnin er úr pálmaolíu hér á landi. Málið komst ekki lengra en til atvinnuveganefndar en nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt án breytinga í nefndaráliti sínu. Í nefndarálitinu segir að komið hafi fram hjá gestum sem komu fyrir nefndina að ekki væri þörf á að flytja inn pálmaolíu til að setja í lífdísil á Íslandi. Unnt væri að framleiða nægan lífdísil á Íslandi, meðal annars úr úrgangi og með ræktun repjuolíu.
Ræktun pálmaolíu ógnar lífríki
Á vef Alþjóðlega náttúruverndarsjóðsins (WWF) er fjallað um pálmaolíu og áhrif framleiðslunnar á umhverfi og lífríki. Þar segir að eftirspurn eftir henni fari vaxandi og framleiðsla þar af leiðandi líka. Í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku stækki plantekrur ört á kostnað regnskóga sem séu mikilvæg híbýli fjölmargra dýrategunda. Tegundirnar sem um ræðir eru margar hverjar í útrýmingarhættu, til að mynda nashyrningar, fílar og tígrisdýr. Þannig er dýrunum ýtt til hliðar þegar skógur er felldur og svæðið sem þau hafa til umráða fer sífellt minnkandi.
Þá segir á vef WWF að um 90 prósent af olíupálma heimsins sé að finna á nokkrum eyjum Malasíu og Indónesíu. Í regnskógum þessara eyja sé að finna eitt fjölbreyttasta lífríki á jörðinni. Bein tengsl eru á milli ræktunar olíupálma og útrýmingu regnskóga á svæðinu.
Malasar íhuga að kæra ákvörðun ESB
Pálmaolía er sem fyrr segir mikilvæg útflutningsafurð í Malasíu. Pálmaolía er í fjórða sæti yfir útflutningsvörur Malasíu sem skila mestu í þjóðarbúið en á fyrri hluta ársins fengust 4,4 prósent af útflutningstekjum Malasíu frá olíunni. Á heimsvísu er pálmaolíuiðnaðurinn metinn á 60 milljarða dala og eru Malasía og Indónesía umsvifamest ríkja í framleiðslunni en tæplega 90 prósent af allri pálmaolíu er framleidd þar líkt og áður segir.
Malasísk yfirvöld íhuga nú að feta í fótspor Indónesískra yfirvalda og kæra ákvörðun Evrópusambandsins um að banna pálmaolíu í eldsneyti til Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, WTO.