Eiríkur Tómasson, formaður dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um tvö laus embætti dómara við Landsrétt, telur sig ekki vanhæfan til þess að taka þátt í umfjöllun nefndarinnar, en árið 2017 bað einn þeirra sem sækjast eftir embætti nú Eirík um að vera umsagnaraðili sinn vegna umsóknar um sama embætti.
Umsækjendur um dómaraembætti þurfa að veita dómnefndinni upplýsingar um tvo aðila sem geta veitt upplýsingar um störf og samstarfshæfni umsækjenda og árið 2017 var Eiríkur annar þeirra aðila sem veitti dómnefnd þessar upplýsingar um Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem er einn þeirra sjö sem sækjast eftir embættum við Landsrétt nú.
Slíkar umsagnir eru eðli málsins samkvæmt ætíð jákvæðar, enda hæpið að umsækjandi um dómaraembætti fengi einhvern sem væri líklegur til þess að veita sér neikvæða umsögn til að vera sinn umsagnaraðili.
Eiríkur segir við blaðamann að ekki sé rétt að kalla þessar umsagnir „meðmæli“, en þær eru fengnar til þess að dómnefndin geti gengið úr skugga um hvort umsækjendur standist lágmarkskröfur um almenna starfshæfni og andlegt atgervi, tveggja þeirra sjónarmiða sem dómnefnd á samkvæmt starfsreglum sínum að byggja mat sitt á.
Fjallað var um málið á fyrsta fundi dómnefndarinnar um það í gær, 4. ágúst, en í svari Eiríks við fyrirspurn Kjarnans segir að þar hafi allir nefndarmenn lýst sig hæfa til að koma að meðferð málsins.
Áður hafði þó verið kallaður inn varamaður til nefndarstarfanna fyrir Ragnheiði Harðardóttur landsréttardómara sem á sæti í nefndinni. Hún er vanhæf þar sem í hópi umsækjenda er annar landsréttardómari, Ragnheiður Bragadóttir, sem sækist eftir nýrri skipan við réttinn.
Umsækjendur geta gert athugasemdir, ef einhverjar eru
Á fundinum í gær upplýsti Eiríkur að hann hefði, að beiðni Jóhannesar Rúnars, fallist á að veita upplýsingar um störf og samstarfshæfni umsækjandans í tilefni af umsókn hans um embætti landsréttardómara árið 2017, en Eiríkur hefur bæði verið yfirmaður Jóhannesar og samstarfsmaður.
Samkvæmt orðsendingu frá Eiríki var greint frá því á fundi dómnefndar að Jóhannes Rúnar „hefði á árinu 1994 starfað um nokkurra mánaða skeið á lögmannsstofu þar sem formaður var meðal eigenda og síðar sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1996–2008 í greinum, er formaður hafði umsjón með sem prófessor, en samskipti þeirra hefðu annars verið takmörkuð.“
Öllum umsækjendum um embættið hefur verið gert viðvart um þetta og hafa þeir tækifæri til þess að gera athugasemdir. Ef slíkar athugasemdir berast, „við hæfi formanns eða annarra nefndarmanna til að fara með málið frá einhverjum umsækjanda mun nefndin taka ákvörðun um hvort þeim beri að víkja sæti í samræmi við 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga,“ segir í svari Eiríks.