Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna sprenginganna sem urðu í Beirút höfuðborg Líbanon í gær og tekur þannig þátt í átaki Rauða kross hreyfingarinnar á heimsvísu.
Staðfest er að 135 manns séu látin og yfir fimm þúsund særð en óttast er að tölur um fjölda látinna og særðra muni hækka, því enn er margra saknað. Spítalar í borginni urðu einnig sumir mjög illa úti og ljóst að mikið endurbyggingarstarf er framundan í borginni.
Rauði krossinn segir á vefsíðu sinni að ljóst sé að þörfin fyrir neyðaraðstoð sé gríðarleg, en yfirvöld í Líbanon hafa gefið það út að heimili yfir 300.000 manns séu óíbúðarhæf eftir sprengingarnar.
„Þá ber að hafa í huga að Líbanon er það ríki sem hýsir hæsta hlutfall flóttafólks í heimi miðað við höfðatölu. Um fjórðungur íbúa er flóttafólk og þar af er rúm 1,5 milljón manns frá Sýrlandi. Þessar hamfarir koma að auki ofan í COVID-19 faraldurinn og óttast er að sú ringulreið sem skapast hefur í kjölfar sprengingarinnar kunni að valda aukningu í smitum, m.a. vegna þess hve illa gengur að sinna persónulegu hreinlæti og viðhafa fjarlægðartakmörk,“ segir á vef Rauða krossins.
Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins um 2.900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900, en einnig má leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.
Forseti Íslands sendi Líbönum kveðju
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sendi Michael Aoun forseta Líbanons samúðarkveðju sína og íslensku þjóðarinnar fyrr í dag. Hann sagði að hugur landsmanna væri nú með þeim sem sönuðu ástvina sinna og hefðu misst heimili vegna þessa skelfilega atburðar.
Einnig minnti hann á að íslensk stjórnvöld væru fús til að útvega aðstoð við björgunaraðgerðir í borginni, en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarmálaráðherra sagði hið sama í yfirlýsingu í gær.