Hópsýkingar munu halda áfram að koma upp hér á landi. „Við verðum að vera undir það búin að horfa upp á þetta næstu mánuði alla vega,“ segir sóttvarnalæknir. Landlæknir sagði að núna væri tækifærið til að kveða niður það smit sem hér er í gangi.
Þjóðin má gera ráð fyrir því að viðhafa þurfi sóttvarnaráðstafanir á borð við tveggja metra reglu næstu vikur og mánuði. „Ég held að það sé algjörlega ljóst að ef við ætlum að halda veirunni hér í lágmarki þá munum við á næstu vikum og mánuðum sjá hópsýkingar sem við munum þurfa að eiga við,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. „Við munum þurfa sífellt að herða og slaka á þessum reglum – ef við ætlum að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur innanlands. Þannig að við verðum að vera undir það búin að horfa upp á þetta næstu mánuði alla vega.“
Alma Möller landlæknir minnti á mikilvægi þess að koma upplýsingum um faraldurinn til ungs fólks sem væri meirihluti þeirra sem hefðu smitast síðustu daga. „Tækifærið er núna til að kveða niður það smit sem er í gangi. Þannig að við verðum að taka okkur á í einstaklingsbundnum smitvörnum, tveggja metra reglunni og þessum aðgerðum sem við höfum sett á. Við bara verðum að fylgja því.“
Á fundinum var spurt sérstaklega um skólastarfið sem samkvæmt venju á að byrja eftir nokkra daga. Þórólfur sagði sóttvarnayfirvöld þegar hafa fundað með skólayfirvöldum. „Skólarnir, öll fyrirtæki og fleiri, eiga í raun og veru að hafa reynslu frá því í vor hvernig eigi að bregðast við.“
Hann benti á að það þurfi ekki allir að fá einstaklingsbundnar leiðbeiningar um það hvernig megi útfæra viðkomandi starfsemi. „Reglurnar eru þannig að við erum með 100 manna hámark og við erum með tveggja metra regluna og svo ákveðnar undantekningar um grímur. Þannig að það þurfa allir að máta sig inn í þetta.“
Þórólfur ítrekaði að börn væru miklu síður en fullorðnir að dreifa smiti og þess vegna þyrfti ekki að hafa jafnmiklar takmarkanir hvað þau varðaði.
Spurður hvort að til greina kæmi að hafa grímuskyldu í framhalds- og háskólum í haust í stað tveggja metra reglunnar svaraði Þórólfur: „Ég held að menn eigi fyrst og fremst að viðhalda tveggja metra reglunni og leita allra leiða til þess. Gríman er meira hugsuð í tímabundnar aðstæður þar sem einstaklingar eru ekki til lengri tíma. Það væri ekki ráðlegt að láta alla nota grímur allan daginn við sín störf.“ Hann ítrekaði að grímur geti veitt falskt öryggi.
Á fundinum var spurt hvort heilbrigðisyfirvöld hefðu áhyggjur af því að fólk væri að hamstra grímur þar sem dæmi væru um að þær væru uppseldar í verslunum. Alma minnti á að ekki væri mælt með almennri grímunotkun á almannafæri, „heldur aðeins í aðstæðum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra reglu í lengri tíma. Við höfum talað um ferjur og flugvélar og síðan þjónustu þar sem er mikil nánd.“
Hún sagði þá hættu fyrir hendi að fólk hamstraði grímur og notaði þær svo þegar þess þyrfti ekki. Alma ítrekaði að þær aðgerðir sem heilbrigðisyfirvöld hafa sett og biðja um að sé framfylgt byggja á trausti. „Það er aldrei hægt að setja reglur um allt. Við sýnum fólki traust og við treystum á að það sýni skynsemi.“