Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga er nú orðinn 109 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is. Slíkur fjöldi hefur ekki verið með COVID-19 frá því í lok apríl.
Sautján ný tilfelli greindust innanlands í gær, 13 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og 4 í skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Þá greindust þrjú smit í landamæraskimun. Í gær voru 795 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 914. Enginn liggur þó á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1952 manns greinst með COVID-19.
Sú breyting hefur orðið á skimun Íslenskrar erfðagreiningar að undanfarið hefur hún verið að skima meðal fólks sem tengist þeim sem þegar hafa greinst með veiruna.
Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi frá því i morgun að einstaklingar sem voru gestkomandi í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina hefðu greinst með staðfest smit af COVID-19. Smitrakningarteymi almannavarna rekur nú ferðir þeirra. 48 einstaklingar sem eru búsettir í Vestmannaeyjum eru þegar komnir í sóttkví og er von á að þeim fjölgi þegar líða tekur á daginn. Enginn er í einangrun í Vestmannaeyjum.
Veikindin ekki mjög alvarleg
Sóttvarnalæknir hefur sagt að veikindi þeirra sem nú eru sýktir séu ekki mjög alvarleg en hefur samtímis minnt á að það kunni að breytast. Mögulega sé verið að greina fólk fyrr núna en í fyrstu bylgju faraldursins í vetur. Þá sé yngra fólk að greinast í meira mæli núna en þá.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í fyrradag bar hann saman fjölda tilfella fyrstu daga fyrstu bylgjunnar og fyrstu daga þeirra bylgju sem nú gengur yfir. Sagði hann þær mjög svipaðar.
Tvö afbrigði af veirunni eru að valda sýkingum nú. Í annarri sýkingunni hefur ekki tekist að rekja smit til upprunans og það afbrigði veirunnar hefur nú skotið sér niður í öllum landshlutum. Ekki hefur heldur tekist að tengja alla þá sem sýkst hafa.
Þjóðin má gera ráð fyrir því að viðhafa þurfi sóttvarnaráðstafanir á borð við tveggja metra reglu næstu vikur og mánuði. „Ég held að það sé algjörlega ljóst að ef við ætlum að halda veirunni hér í lágmarki þá munum við á næstu vikum og mánuðum sjá hópsýkingar sem við munum þurfa að eiga við,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í gær. „Við munum þurfa sífellt að herða og slaka á þessum reglum – ef við ætlum að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur innanlands. Þannig að við verðum að vera undir það búin að horfa upp á þetta næstu mánuði alla vega.“
Alma Möller landlæknir minnti á mikilvægi þess að koma upplýsingum um faraldurinn til ungs fólks sem væri meirihluti þeirra sem hefðu smitast síðustu daga. „Tækifærið er núna til að kveða niður það smit sem er í gangi. Þannig að við verðum að taka okkur á í einstaklingsbundnum smitvörnum, tveggja metra reglunni og þessum aðgerðum sem við höfum sett á. Við bara verðum að fylgja því.“
Hún ítrekaði hins vegar fyrr í vikunni að við værum í miklu betri stöðu núna en í vetur til að sinna þeim sem veikjast. „Covid-göngudeildin heldur vel utan um alla og ef að fólk þarf innlögn þá búa læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk yfir nauðsynlegri þekkingu, reynslu, lyfjum og tækjabúnaði.“