Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári eftir að hafa skilað 39 milljóna króna hagnaði árið 2018. Rekstarniðurstaða félagsins (EBITDA) fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var neikvæð um 59 milljónir króna, en afskriftir námu alls 138 milljónum króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að kostnaður vegna sameiningar við sjónvarpsstöðina Hringbraut og DV og tengda miðla hafi allur verið færður til gjalda á síðasta ári. Rekstrartekjur Torgs voru 2,3 milljarðar króna en höfðu verið 2,6 milljarðar króna árið áður og drógust saman um yfir tíu prósent milli ára. Hjá Torgi starfa um 100 manns.
Helgi átti eftir það 82 prósent í Torgi en aðrir eigendur eiganda útgáfufélagsins, félagsins HFB-77 ehf., eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.
Á fimmtudagskvöldið 13. desember greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir. Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi, en Frjáls fjölmiðlun var rekin með miklu lausu tapi frá því að félagið var stofnað til að kaupa DV og tengdra miðla árið 2017.
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum var Torg orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.