Einn sjúklingur með COVID-19 liggur enn á gjörgæsludeild Landspítalans í öndunarvél. Hann er á fertugsaldri. Af þeim þremur sem greindir voru með COVID-19 í gær voru tveir þegar í sóttkví. Þá tengdust tveir þessara einstaklinga hópsýkingunni í Vestmannaeyjum.
Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar sem þegar lægju fyrir sýndu að þær sýkingar sem hefðu greinst að undanförnu væru af völdum sama afbrigðis veirunnar. Þetta afbrigði hefur stungið sér niður í öllum landshlutum. Nú eru 112 virk smit í landinu. „Nokkurn fjölda þessara einstaklinga hefur ekki tekist að rekja saman og það er okkar aðal áhyggjuefni,“ sagði Alma.
Íslensk erfðagreining hefur skimað að undanförnu en nú hefur sú breyting orðið á þeirri framkvæmd að skimað er út frá tilfellum sem upp koma og samkvæmt mati smitrakningarteymis. Í dag er t.d. í gangi skimun í Vestmannaeyjum.
„Næstu dagar munu skera úr um hvort hægt verði að fullyrða hvort að við höfum náð böndum á þessum faraldri,“ sagði Alma. Ánægjulegt væri að aðeins þrír hefðu greinst í gær en af því væri vissulega ekki enn hægt að draga neinar ályktanir enda sveiflur milli daga.
„Við viljum áfram hvetja alla sem eru með einkenni sem gætu bent til COVID að halda sig heima og hafa samband við sína heilsugæslu.“ Þau einkenni sem mest hefði borið á upp á síðkastið væru hálssærindi, vöðva- og beinverkir, slappleiki, hiti og höfuðverkur. Þá væru einnig til staðar sjaldgæfari einkenni á borð við skyndilegt tap á bragð- og lyktarskyni, ógleði, uppköst og niðurgang.
„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum í þessum aðgerðum. Þessi veira er skæð og getur valdið veikindum hjá mjög mörgum ef ekkert er að gert. Það er umtalsverður hluti þeirra sem fær hana í sig sem veikist alvarlega.“ Benti Alma því samhengi á að af þeim sem greindust í vetur hafi um 7 prósent á sjúkrahúsinnlögn að halda og 1,5 prósent á gjörgæsluinnlögn að halda. „Vissulega er áhættan mest fyrir þá eldri að veikjast alvarlega en það er samt þannig að fólk á öllum aldri getur orðið alvarlega veikt.“
Þá sagði hún að umtalsverður hluti þeirra sem veiktist lítillega í vetur væri enn að glíma við langvarandi og fjölbreytt einkenni, meðal annars mikið úthaldsleysi. „Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að við viljum halda veirunni niðri.“
Alma sagði að sjúklingunum væri sinnt af Covid-göngudeildinni og að í hópi þeirra væru fólk sem væri veikt, þó það þyrfti ekki á innlögn að halda. Spurð hvort að sjúklingurinn sem nú lægi á gjörgæslu, sem væri rétt rúmlega þrítugur, hefði undirliggjandi sjúkdóma svaraði Alma að engar upplýsingar væru veittar um einstaka sjúklinga. „En ég legg áherslu á að ungt og áður hraust fólk getur orðið alvarlega veikt.“
Á fundinum var hún spurð út í þá gagnrýni Gylfa Zoega hagfræðiprófessors um að stjórnvöld hafi gert mistök með því að opna landamærin með skimunum um miðjan júní. Gylfi setti þessa gagnrýni sína fram í grein sem birt er í Vísbendingu. „Ég er náttúrlega ekki hagfræðingur,“ byrjaði Alma á að svara. „Það var auðvitað ríkisstjórnin sem ákvað að það væri mikilvægt fyrir efnahag landsins að hingað kæmu ferðamenn. Og það var farin sú leið að skima, sem mér fannst vera rétt leið, að gæta eins mikillar varkárni og hægt væri. Auðvitað vissum við að skimunin væri ekki fullkomin en við vissum að hún myndi minnka líkur á því að hingað bærust smit.“
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn vildi svo hnykkja á því að landamærin hafi aldrei verið alveg lokuð. „Það hefur alltaf verið umræða um að 15. júní hafi landamærin opnað en þá voru settar miklu strangari og stífari reglur um landamærin. Fram að þeim tíma gátu allir innan Schengen-svæðisins komið hér og valið að vera hér í sóttkví í fjórtán daga.“