Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einagrun er enn 114 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is. Þó að ný virk smit hafi greinst síðustu daga hefur ekki fjölgað í hópi þeirra sem eru með virk smit þar sem tekist hefur að útskrifa hluta þess fólks sem smitaðist fyrst í þessari annarri bylgju faraldursins.
Engin ný tilfelli greindust innanlands í gær, en þrjú virk smit greindust við landamærin. Í gær voru 938 í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn niður í 839.
Tveir sjúklingar eru á sjúkrahúsi með COVID-19. Annar þeirra, maður á fertugsaldri, er á gjörgæsludeild Landspítalans og í öndunarvél. Hinn er á tvítugsaldri.
289 sýni voru tekin og greind hjá Landspítalanum í gær og 56 hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hóf m.a. skimun í Vestmannaeyjum um helgina þar sem hópsmit kom upp um verslunarmannahelgina. 3.105 sýni voru tekin við landamærin og hafa ekki fleiri verið tekin frá því að skimunin hófst um miðjan júní.
Af þeim sem eru með virkt smit eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 42. Ellefu á aldrinum 13-17 ára eru með COVID-19 og eitt barn yngra en tólf ára. Fimm einstaklingar eldri en sextíu ára eru með sjúkdóminn.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.968 greinst með COVID-19. Þó að engin innanlandssmit hafi greinst í gær, að því er fram kemur á covid.is, hefur heildarfjöldi greindra þó hækkað um sex á milli daga.
Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.