Engin áform eru uppi um það af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að skylda ÁTVR til að leggja fram ársreikninga sína með öðrum hætti en nú er gert. Ráðuneytið skoðar þó hvort hægt væri að auka gagnsæi í rekstri ÁTVR, meðal annars með því að tilgreina sérstaklega afkomu hverrar og einnar verslunar sem ÁTVR rekur.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorstein Víglundssonar, fyrrverandi þingmanns Viðreisnar, sem birt var á vef Alþingis í gær, en Þorsteinn kallaði eftir því að fá upplýsingar um afkomu ÁTVR af sölu áfengis annars vegar og tóbaks hins vegar.
Þau svör fékk þingmaðurinn fyrrverandi þó ekki, en í svari fjármálaráðherra segir það sem oft áður hefur komið fram, að ÁTVR greinir ekki í sundur rekstrarkostnað eftir áfengi annars vegar og tóbaki hins vegar.
„Árið 1961 voru Áfengisverslun ríkisins og Tóbaksverslun ríkisins sameinaðar í eina stofnun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR. Nú er verslunin rekin sem ein heild og rekstrarkostnaði ekki haldið aðskildum enda ekki gerð krafa um slíkt, hvorki í lögum né af hálfu eiganda,“ segir í svari Bjarna.
Árum saman hafa verið færð rök fyrir því að svo virðist sem ÁTVR sé að niðurgreiða kostnað sinn af áfengissölu með hagnaði sem til fellur vegna tóbakssölu. ÁTVR hefur hingað ekki sagst geta upplýst um hver beinn kostnaður fyrirtækisins af tóbakssölunni er, einmitt sökum þess að rekstrarkostnaðinum sé ekki haldið aðskildum, en það gæti styst í að þær upplýsingar liggi fyrir.
Fyrr í sumar greindi Fréttablaðið nefnilega frá því að Ríkisendurskoðun hefði óskað eftir að fá rekstrarkostnað stofnunarinnar vegna sölu á áfengi annars vegar og tóbaki hins vegar verði sundurliðaður.
Reikningsdæmi frá 2018
Í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2018 kom fram að alls hefðu sjö manns verið við störf í neftóbaksframleiðslu fyrirtækisins og tólf við heildsölu og dreifingu tóbaks. Alls var kostnaður ÁTVR vegna launa og launatengdra gjalda á árinu 2018 um 2,8 milljarðar króna og ársverk voru 354. Það þýðir að árlegur kostnaður við hvert ársverk var um 7,9 milljónir króna. Þau 19 ársverk sem eru í tóbakshluta framleiðslunnar ættu því að kosta um 150 milljónir króna á ári.
Það myndi þýða að um 1,5 milljarða króna hagnaður stæði eftir af tóbakssölunni eftir að búið væri að gera ráð fyrir tóbaksgjaldi og launakostnaði þeirra sem störfuðu beint við tóbaksdreifingu, eða -framleiðslu. Það er upphæð sem er tæplega 400 milljónum krónum yfir heildarhagnaði ÁTVR á árinu 2018.
Þó verður að gera ráð fyrir því tóbakssalan sé ábyrgð fyrir einhverjum viðbótarkostnaði vegna skrifstofuhalds og annarra sameiginlegra kostnaðarþátta í rekstri ÁTVR. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki, líkt og áður segir, verið tilbúið að sundurliða þann kostnað.