Tvöföld skimun og 4-5 daga sóttkví allra sem koma til landsins mun bitna á öllu á samfélaginu samkvæmt Bjarnheiði Hallsdóttur formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta segir Bjarnheiður í nýrri skoðanagrein sinni, Menningarveturinn, sem birtist á Vísi. Þar segir hún ákvörðunina vera enn eitt rothöggið fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. „Á endanum líka, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr fyrir allt samfélagið,“ segir Bjarnheiður.
Hún segir að allt eins hefði verið hægt að taka upp tveggja vikna sóttkví fyrir alla þá sem koma til landsins ef markmiðið sé að útrýma veirunni úr samfélaginu. „Það munu fáir, ef einhverjir „venjulegir“ ferðamenn, sem dvelja að meðaltali 7-8 nætur á landinu, koma til landsins til að dúsa innilokaðir megnið af ferðinni. Það er hreinn barnaskapur að halda að svo verði,“ segir Bjarnheiður í grein sinni.
Frostavetur fremur en menningarvetur fram undan
Bjarnheiður gerir grein Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 15. þessa mánaðar að umfjöllunarefni sínu en þar talaði Lilja um tilslakanir til að auka menningarvirkni. Bjarnheiður segist sammála Lilju um að listir og menning gefi lífinu gildi og séu mikilvægar. „Hins vegar er það deginum ljósara að svikalogn sumarsins er nú að renna sitt skeið á enda. Það stöðvaðist endanlega við nýjustu tíðindin af stjórnarheimilinu. Að óbreyttu mun atvinnustigið innan skamms verða miklu verra en óttast var,“ bætir Bjarnheiður svo við.
Hún segir að kaupmáttur muni minnka og einkaneysla dragast saman, samhliða lægri ráðstöfunartekjum stórs hluta starfsmanna á almennum markaði. Þá muni eftirspurn erlendra ferðamanna eftir vörum og þjónustu stöðvast að sögn Margrétar. Hún lýkur svo grein sinni á efasemdarorðum um að menningin geti vegið upp á móti því sem tapast með minnkandi umsvifum í ferðaþjónustu: „Hvort menningarveturinn hennar Lilju Alfreðsdóttur nái að vega þar upp á móti, leyfi ég mer að stórefast um. Kannski væri nær að byrja að búa sig undir frostavetur.“
Miklir hagsmunir í húfi
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um þá hafa stjórnvöld lagt mat á efnahagsleg áhrif þess að opna landið og borið það saman við ábatann af því að hleypa ferðamönnum inn. Í minnisblaði ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram fyrir helgi var sagt að „efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli.“ Niðurstaða minnisblaðsins virðist vera sú að efnahagslegur kostnaður þess að hafa landamærin opin sé meiri en ábatinn sem það skapi fyrir ferðaþjónustu.
Um efnahagslega hagsmuni þess að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum segir í minnisblaðinu: „Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um fjögur prósent af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20 prósent á öðrum ársfjórðungi.“
Í minnisblaðinu kemur einnig fram að framlag hvers ferðamanns á hagkerfið sé metið á 100 til 120 þúsund krónur og því er áætlað að þeir ferðamenn sem hafa heimsótt landið frá því að takmörkunum var lyft á landamærum Íslands um miðjan júní hafi lagt um átta milljarða króna til efnahagslífsins.