Virði bréfa í Icelandair Group hefur hríðfallið í mjög litlum viðskiptum í morgun. Alls hafa átt sér stað viðskipti fyrir fimm milljónir króna og virði bréfanna lækkað um alls 42,07 prósent í þeim. Gengi bréfa í félaginu við lokun markaða í gær var 1,64 krónur á hlut en er nú 0,95 krónur á hlut. Þetta er í fyrsta sinn frá því að Icelandair Group var skráð á markað að gengi bréfa í félaginu fer undir eina krónu á hlut. Markaðsvirði Icelandair Group er, samkvæmt núverandi gengi, 5,2 milljarðar króna.
Hin mikla lækkun var viðbúin í ljósi þess að Icelandair sendi frá sér tilkynningu seint í gærkvöldi þar sem félagið tilkynnti um að fyrirhuguðu hlutafjárútboði þess hefði verið frestað fram í september. Auk þess var þar gefið upp að ákveðið hefði verið að lækka þá tölu sem sóst yrði eftir í hlutafjárútboðinu, en hún var upphaflega allt að 200 milljónir dala, um 27,5 milljarðar króna. Nú er hins vegar stefnt að því að selja nýja hluti fyrir allt að 20 milljarða króna, með heimild til að auka hlutafé um þrjá milljarða króna í viðbót ef umframeftirspurn skapast. Viðmælendur Kjarnans segja að það bendi til þess að væntingar um að selja allt hlutaféð sem upphaflega átti að safna, hefðu verið óraunhæfar, og því hafi verið ákveðið að minnka útgáfuna.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ávöxtun af fjárfestingu fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins í Icelandair í fréttaskýringu nýverið. Þar kom fram að aðkoma að Icelandair hafi ekki skilað mikilli arðsemi, og í tveimur tilfellum miklu tapi.
Lagt lokahönd á lánalínu með ríkisábyrgð
Hluthafar í Icelandair þurfa að samþykkja að framlengja heimild félagsins til hlutafjáraukningar, en hún var veitt 22. maí síðastliðinn og rennur út 1. september. Vegna þessa mun Icelandair boða til nýs hluthafafundar á næstu dögum.
Í tilkynningunni sem send var út í kvöld segir að til viðbótar sé gert ráð fyrir því að tillaga verði lögð fyrir hluthafafund sem felur í sér að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvari allt að 25 prósent af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. „Heimilt yrði að nýta þau í einu lagi eða í skrefum á allt að tveggja ára tímabili frá útgáfu samkvæmt nánari skilmálum sem stjórn ákveður.“
Icelandair Group tilkynnti fyrir sex dögum að félagið væri búið að undirritað samninga við alla kröfuhafa sína og væri auk þess búið að ná endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvéla.
Í tilkynningunni í gær sagði enn fremur að viðræður við íslensk stjórnvöld um lánalínu með ríkisábyrgð, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann séu á lokastigi. „Með fyrirvara um samþykki stjórnvalda fyrir lánalínunni, gerir félagið ráð fyrir að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði á næstu dögum.“
Markaðsvirðið hrunið
Markaðsvirði Icelandair er nú, líkt og áður sagði um 5,2 milljarðar króna.
Hæst fór það í apríl 2016 þegar það var 191,5 milljarðar króna. markaðsvirðið í dag er því undir þrjú prósent af því sem það var vorið 2016.
Við þá tölu verður að bæta að í apríl 2019 var hlutafé í Icelandair aukið um 11,5 prósent og það selt til bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital Management á 5,6 milljarða króna.