Hinn svokallaði þolmarkadagur jarðarinnar (e. Earth Overshoot Day) er í dag, 22. ágúst. Dagurinn segir til um hvenær mannkynið hefur notað þær auðlindir sem jörðin hefur getu til að endurnýja á einu ári, jörðin er sum sé komin að þolmörkum sínum í dag. Mannkynið hefur að vísu ekki gengið jafn hratt á auðlindir jarðarinnar í ár líkt og í fyrra. Ástæðan fyrir því er kórónuveirufaraldurinn að mati rannsakenda, samkvæmt frétt The Guardian. Vegna minni umsvifa og neyslu jarðarbúa færist svokallaður þolmarkadagur jarðarinnar um þrjár vikur milli ára en í fyrra féll dagurinn á 29. júlí.
Samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar voru af alþjóðlegu samtökunum Global Footprint Network þá hafði kórónuveirufaraldurinn þau áhirf að vistfræðilegt fótspor jarðarbúa skrapp saman um 9,3 prósent á milli ára. Engu að síður þyrfti 1,6 jörð til þess að standa undir auðlindanotkun jarðarbúa að svo komnu máli.
Í frétt Guardian er haft eftir Mathis Wackernegel, forseta Global Footprint Network, að þolmarkadagur jarðar sé í raun leið til þess að sýna fram á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að neyslu og áhrifum hennar á jörðina. Gögn þessa árs hafi verið verið hvetjandi en að hans mati sé enn þörf á framförum, framförum sem tilkomnar séu vegna ákvarðana en ekki hamfara.
Auðlindir framtíðar notaðar fyrir neyslu dagsins í dag
Samkvæmt mælingum Global Footprint Network hefur reynt á þessi þolmörk allt frá árinu 1970. Sú tilfærsla á dagsetningunni sem á sér stað á milli áranna 2019 og 2020 er sú mesta frá því að þolmarkanna varð fyrst vart en þessi dagur hefur aldrei verið jafn snemma á árinu og í fyrra. Efnahagslegar þrengingar hafa seinkað yfirdráttardeginum áður, til að mynda eftir fjármálakreppuna 2008, en þær breytingar hafa ávallt verið tímabundnar.
Wackernagel líkir neyslu okkar við Ponzi-svikamyllu, við séum að ganga á auðlindir framtíðar til þess að standa straum af neyslu dagsins í dag. Í flestum löndum gilda ströng lög sem banna fyrirtækjum að stunda Ponzi-svik en þegar kemur að vistkerfunum þá virðast slík svik vera í lagi. Við eigum einungis eina jörð og það mun ekki breytast, “ er haft eftir Wackernagel í frétt Guardian.